Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Innkalla reyktan lax vegna listeríu

12.02.2019 - 12:05
Innlent · Fiskar · lax · Matur · Sjávarútvegsmál
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd:
Matvælastofnun varar við neyslu á reyktum laxi og reyktri fjallableikju frá Ópal Sjávarfangi. Vörurnar hafa verið innkallaðar af markaði vegna listeríu, sem greinst hefur í þeim, í samráði við MAST.

Matvælastofnun stöðvaði dreifingu á reyktum laxi, bleikju og graflaxi frá Ópal 5. febrúar á meðan rannsókn stendur yfir. Dreifing og markaðssetning verður ekki leyfð fyrr en MAST hefur fengið staðfest að listería greinist ekki í framleiðsluferlinu.

Í tilkynningu á vef MAST er þeim sem hafa keypt vöruna bent á að neyta hennar ekki og hafa samband við fyrirtækið um endurgreiðslu. Á vef MAST má finna nánari upplýsingar um útlit vörunnar, strikamerki og hvernig á að hafa samband við Ópal.

Listeria getur orsakað sjúkdóm bæði hjá mönnum og dýrum og kallast hann listeriosis. Einkenni sjúkdómsins eru mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Alvarlegri einkenni eru heilahimnubólga í ungbörnum og blóðeitrun. Sjúkdómurinn einnig valdið fósturláti. Í einstaka tilfellum getur bakterían valdið dauða, þá er yfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru með skert ónæmiskerfi. Á vef MAST segir að neysla á listeríumenguðum mat valdi heilbrigðum einstaklingum ekki sjúkdómi. Barnshafandi konur, börn í móðurkviði og fólk með skert ónæmiskerfi eru í sérstakri áhættu.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir