Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Innheimtu ekki vegna Ögmundar

31.03.2014 - 09:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Talsmaður Landeigendafélags Geysis, viðurkenndi í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, að innheimtu hafi verið sleppt í gær vegna komu Ögmundar Jónassonar fyrrverandi innanríkisráðherra. Ögmundur mætti til að mótmæla innheimtunni sem hann segir ólöglega.

Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendfélags Geysis, sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að tilviljun hefði ráðið því að gjald hafi ekki verið innheimt þegar Ögmundur kom í heimsókn. Ástæðan hafi verið þátttaka í kynningarátakinu Leyndardómar Suðurlands og ef þingmaðurinn kæmi aftur yrði hann rukkaður. Í Morgunútvarpinu í morgun viðurkenndi hann að koma Ögmundar hefði verið ástæðan.

„Eigum við bara ekki að segja það að Ögmundur hefur þetta lag að efna alltaf til ófriðar og ég get ekki boðið mínu starfsfólki upp á það að vera einhversstaðar þar á milli.“

Þá var Garðar spurður hvort ákveðið hefði verið að vægja á meðan Ögmundur kæmi. „Já, við bara ákváðum bara að haga hlutunum þannig. Ég vil bara minna Ögmund á að hann er alþingismaður og bera að virða stjórnarskrána,“ svaraði Garðar.

Ögmundur, sem einnig var í Morgunútvarpinu, sagðist ætla að fylgjast með því hvernig málið þróaðist í vikunni. „En að óbreyttu mun ég mæta á laugardaginn klukkan hálf tvö og ef það verður einhver fyrir einhverju áreiti, krafinn um gjaldtöku eða einhverju áreiti að slíku tagi að þá mun ég að sjálfsögðu bara hringja í lögregluna eins og maður gerir ef maður verður fyrir áreiti,“ sagði Ögmundur.