Innheimta gjald við komu og brottför

19.06.2013 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn Ferðafélags Íslands vill innheimta gjald af ferðamönnum við komu og brottför til og frá landinu og fella niður gistináttagjaldið. Einnig að setja sérstakt gjald á þau svæði sem eru undir miklu álagi. Greiningardeild Arion banka lagði fram svipaðar tillögur í skýrslu um horfur í ferðaþjónustu.

Stjórn Ferðafélags Íslands samþykkti í gær bókun um gjaldtöku af ferðamönnum. Innheimta ætti breiðan flatan gjaldstofn af öllum sem hingað koma. „Allir sem koma og fara frá landinu greiði ákveðið gjald, þetta eru þrjár leiðir, það er með flugi, með Norrænu og skemmtiferðaskipum. Með þessu væri hægt að hafa örugga leið sem ekki býður upp á undanskot og vandræði fyrir ferðaþjónustuna. Þessi sjóður yrði notaður til almennrar uppbyggingar á ferðamannastöðum sem ekki geta tekið gjald,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands.

Hægt væri að stilla upphæðinni á hvern ferðamann eftir því sem þurfa þykir, 500 króna gjald gæfi hálfan milljarð, þúsund krónur gæfu einn milljarð á ári. Ólafur segir að þetta þekkist í mörgum löndum sem nokkurs konar umhverfisgjald. Þetta sé hógvær gjaldtaka sem myndi skila miklum árangri. En Ólafur segir þetta ekki duga fyrir þá staði sem þegar eru undir miklu álagi og þurfa mjög á skjótum aðgerðum að halda. „Þingvellir, Gullfoss, Geysir, Landmannalaugar, Dimmuborgir. Þessir staðir geta ekki beðið árum saman eftir úthlutunum úr almennum sjóði, verða hinsvegar að taka gjald sjálfir.“ 

Hann nefnir sem dæmi að fara þurfi í uppbyggingu á Þingvöllum fyrir um 750 milljónir króna á næstu þremur árum. Við Geysi sé svæðið útsparkað og hættulegt og uppbygging þar þoli ekki bið. Flati, breiði gjaldstofninn myndi forða okkur út úr þeim vandræðum sem gistináttagjaldið er, segir Ólafur Örn. Það gjald kallar hann óskapnað sem þurfi að leggja niður „Gjaldið í fyrsta lagi skilar sáralitlum peningum, í öðru lagi er ósamræmi og ójafnvægi milli gistileiða og gistimöguleika, hvort menn eru í tjaldi, bændagistingu eða á hótelum, hversu margir gista saman í herbergi, þetta er ekkert nema flækja, ferðaþjónustufyrirtækin hafa orðið að breyta tölvukerfum sínum, þetta hefur því miður leitt til undanskota, þannig að þetta verður aldrei nýtilegt kerfi,“ segir Ólafur.

Greiningardeild Arion banka styður hugmyndir um gjaldtöku á vinsæla ferðamannastaði og áætlar að árlegur tekjur af henni geti numið þremur til fimm milljörðum króna. Deildin leggur til að gjald verði lagt á sjö vinsælustu ferðamannastaði landsins. Slíkt gjald yrði einungis rukkað yfir háannatímann, til þess að dreifa álagi og ágangi ferðamanna.

Í skýrslu greiningardeildar Arion banka um horfur í ferðaþjónustu, sem kom út í morgun, kemur fram að hlutdeild ferðaþjónustunnar í útflutningi hafi tvöfaldast á undanförnum árum. Beint framlag greinarinnar til vergrar landsframleiðslu sé á við helming framlags sjávarútvegs. Þá er hlutdeild ferðaþjónustu í útflutningi orðin á við sjávarafurðir og álútflutning.

Greiningardeildin spáir áframhaldandi vexti í greininni, allt að 60% fjölgun ferðamanna á næstu þremur árum. Þá taka skýrsluhöfundar einnig afstöðu til hugmynda um gjaldtöku á vinsæla ferðamannastaði og stinga upp á gjaldtöku fyrir sjö vinsælustu ferðamannastaðir landsins, á bilinu þrjú til fimm þúsund krónur. Miðað við það gætu tekjur verið um þrír til fimm milljarðar á ári. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi