Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Innflytjendur haldi við sínu tungumáli

19.03.2018 - 15:19
Mynd:  / 
Vesturíslenska, íslensk tunga í vesturheimi var rannsóknarefni hóps fræðimanna sem fór til Kanada og Bandaríkjanna á árunum 2013-15 og söfnuðu ýmiss konar heimildum sem nú nýtast til frekari rannsókna á þessu sviði. Verkefnið kallast Mál, málbreytingar og menningarleg sjálfsmynd.

Í fyrstu ferð hópsins út kom í ljós, eins og vænta mátti, að íslenskan er á fallanda fæti en þarna gátu rannsakendur hinsvegar kannað hvernig íslenskan hefur þróast við allt aðrar félagslegar aðstæður en eru á Íslandi og þá kom margt forvitnilegt í ljós. Raddaður framburður og flámæli hafa til að mynda lifað góðu lífi ytra, á meðan aðra sögu er að segja á Íslandi.

Kristín Margrét Jóhannsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og ein af þeim sem fór út á vegum verkefnisins, segir margt mega læra af vestur íslendingum, ekki síst í tengslum við fjölmenningarsamfélagið á Íslandi í dag.

„Ef þú setur þetta svo í samhengi við stöðu mála á íslandi í dag með þessa fjölmenningu, þá erum við sem erum í þessum málfræðilega geira, við erum algjörlega á því að útlendingar eigi að læra íslensku en að þeir eigi að halda sínu tungumáli við og helst eigi börn innflytjenda að fá kennslu á sínu eigin tungumáli, þ.e.a.s. í tungumálinu sjálfu. Vegna þess að það er alveg ljóst að ef að barnið er sterkt í sínu fyrsta máli þá er það líklegra til að vera gott í sínu öðru máli, þannig að við eigum að styðja við innflytjendurna," segir hún. 

birnap's picture
Birna Pétursdóttir
eddasif's picture
Edda Sif Pálsdóttir