Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Innflytjendur á Húsavík verr staddir

06.04.2017 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Innflytjendur á Húsavík tengjast samfélaginu verr, tala minni íslensku og eru með lægri laun heldur en innflytjendur á Dalvík og Akureyri, samkvæmt nýrri rannsókn Háskólans á Akureyri. Heimamenn á Húsavík eru þó jákvæðari gagnvart fleiri innflytjendum en á Dalvík. Yfir helmingur innflytjenda á Húsavík segist vera með á bilinu 100 til 300 þúsund krónur í laun á mánuði.

Fjöldi innflytjenda á Dalvík hefur tólffaldast

Fjöldi innflytjenda á Norðausturlandi hefur meira en fjórfaldast síðustu tvo áratugi. Á árunum 1996 til 2016 fjölgaði innflytjendum á Akureyri úr 236 í 828, úr 18 í 222 á Dalvík og úr 40 í 237 í Norðurþingi. Uppgangur í efnahagslífinu og eftispurn eftir starfskröftum hefur verið helsta ástæða fjölgunarinnar, sem og móttaka flóttafólks.

Sýna minni tengls við samfélagið og fá síður vinnu

Markus Meckl prófessor og Kjartan Ólafsson lektor við Háskólann á Akureyri skoðuðu stöðu innflytjenda í bæjunum þremur. Í ljós kom að innflytjendur á Húsavík sýna minni tengsl við nærsamfélagið, hafa takmarkaðri tækifæri til að fá vinnu við hæfi og tala síður íslensku heldur en innflytjendur á Dalvík og Akureyri. 

100 til 300 þúsund í laun á mánuði

Launin virðast einnig vera lægst á Húsavík, en yfir helmingur innflytjenda þar sagðist vera með 100 til 300 þúsund krónur á mánuði í laun fyrir skatt. Launin voru mun hærri á Dalvík og Akureyri. Þar sögðust flestir vera með á bilinu 300 til 500 þúsund. Tæp 20 prósent á Akureyri voru með hærri laun en það, en undir tíu prósent á Húsavík og Dalvík. 

Hafa aldrei heyrt minnst á Bjarna Ben

Nokkrar spurningar sneru að almennri þekkingu á íslensku samfélagi. Yfir  70 prósent innflytjenda á Dalvík höfðu aldrei heyrt minnst á Bjarna Benediktsson en hlutfallið var rúm 55 prósent á Húsavík og um 45 prósent á Akureyri. 

Húsvíkingar jákvæðastir gagnvart fleiri innflytjendum

Þegar afstaða almennings í bæjunum var skoðuð kom í ljós að Húsvíkingar og Akureyringar voru jákvæðastir gagnvart innflytjendum. Einungis 12 prósent þeirra vildu ekki frekari innflytjendur, samanborið við 30 prósent Dalvíkinga. 

Í hverjum bæ voru tveir spurningalistar lagðir fram, einn fyrir innflytjendur og annar fyrir aðra sem búa í bænum, 18 ára og eldri. 95 innflytjendur á Dalvík tóku þátt, 61 á Húsavík og 192 á Akureyri. Flestir voru frá Austur Evrópu. Niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar í Háskólanum á Akureyri klukkan 10 á föstudag, 7. apríl. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV