Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Innfluttar plöntur í mold skaðvaldur

22.07.2013 - 20:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Innflutningur á plöntum í mold ætti ekki að líðast segir Erling Ólafsson skordýrafræðingur. Með moldinni eru flutt inn heilu vistkerfin sem valda skaða og breytingum á íslenskri náttúru.

Munur er á meðhöndlaðri pakkari mold og þeirri sem plöntur er fluttar inn í. Erling segir fjölmargar tegundir þrífast í pottunum sem ekki þekkist á Íslandi. Þannig sé beinlínis verið að flytja inn vistkerfi frá útlöndum og planta því í garða. Sumar tegundirnar setjist hér að og geti valdið usla, eða í öllu falli breytingum á vistkerfi okkar eins og það er.

Plöntunum er plantað í garða við heimahús og sumarbústaði þaðan sem leiðin er greið í íslenska náttúru. Erling er viss um að birkikemba, sem skemmir íslenskt birki nú um stundir, hefur komið með innfluttu birki. Spánarsnigill hafi hugsanlega komið sömu leið, því Erling veit dæmi þess að spánarsnigill hafi fundist ofan í innfluttum blómapotti.

Spánarsnigilinn fjölgar sér hægar en Erling bjóst við en hann mun ná sér á strik síðar. Og sá er raunverulegur skaðvaldur sem sækir í þefmiklar plöntur og skilur fátt eftir. Auk þess segir Erling snigilinn ráðast á hundaskít og éta hann upp, en bætir við að reyndar kvarti enginn undan því.

Erling segir aðrar leiðir vænlegri til að flytja inn nýjar tegundir plantna - það sé til dæmis vel hægt að flytja þær inn án þess að hafa þær í mold. Þær megi rótarþvo og planta í íslenskan jarðveg þegar þær koma til landsins. Það sé gert víða um heim og Íslendingar séu aftarlega á merinni ef þessu verklagi verður haldið áfram. Innflutningurinn jaðri við að vera tilræði við umhverfið.