Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Innflutningsbann á kjöti ólöglegt

07.03.2013 - 18:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Eftirlitsstofnun EFTA telur að bann Íslands við innflutningi á hráu kjöti brjóti gegn ákvæðum EES-samningsins. Stofnunin hefur veitt íslenskum stjórnvöldum frest til loka maí til að standa fyrir máli sínu, en áskilur sér rétt til að fara með málið fyrir dómstóla.

Matvælafrumvarpið svokallaða var samþykkt í árslok 2009. Því var ætlað að innleiða reglugerðir Evrópusambandsins um matvæli og fóður. Þegar þær voru settar inn í EES-samninginn skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til að heimila innflutning á hráu kjöti frá ríkjum Evrópusambandsins.

Jón Bjarnason, þáverandi landbúnaðarráðherra, felldi það ákvæði hins vegar út úr frumvarpinu og þannig var það samþykkt.
Samtök verslunar og þjónustu sendu kvörtun vegna þessa til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, í árslok 2011.

ESA bað íslensk stjórnvöld um rök fyrir banninu og skýringar á af hverju ekki hefði mátt grípa til vægari aðgerða eins og beri að gera ef unnt er.
Í svari íslenskra stjórnvalda segir að ákvörðun um að banna innflutning á hráu kjöti byggist á skoðunum fremstu sérfræðinga í dýrasjúkdómum og lýðheilsu og að ekkert hafi gerst sem réttlæti stefnubreytingu íslenskra stjórnvalda.

Með fylgir greinargerð um slæma reynslu Íslendinga og fjárhagslegan skaða sem þjóðin hafi mátt þola vegna innflutnings dýra og dýraafurða. Þar eru tiltekin nokkur dæmi um innflutning sauðfjár frá því um miðja 18. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Þar er einnig að finna dæmi um innflutning dýrahúða frá 18. öld. Ekkert dæmi um skaðsemi þess að flytja inn hrátt kjöt er að finna í samantektinni.

ESA var ekki ánægð með svör Íslands og bað um ítarlegri röksemdafærslu. Stofnunin ítrekaði þá skoðun sína að bannið fæli í sér óeðlilega viðskiptahindrun.

Íslensk stjórnvöld sendu ítarlegt svar um hæl og bentu meðal annars á að íslenskur kvikfénaður væri viðkvæmur fyrir sjúkdómum og hætta búin af innfluttu hráu kjöti ef í því leyndust sjúkdómar.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur nú komist að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að bann Íslands við innflutningi á hráu kjöti frá ríkjum Evrópusambandsins, brjóti gegn reglugerð sambandsins og ákvæðum EES-samningsins.  Framkvæmdastjórn ESB hefur fylgst náið með málinu og af bréfum hennar má ráða að hún sé algerlega sammála ESA. 

Íslenskum stjórnvöldum er veittur frestur til 20. maí næstkomandi til að skila andsvörum við bráðabirgðaniðurstöðum eftirlitsstofnunarinnar. Í ljósi þeirra svara verður tekin ákvörðun um hvort farið verði með málið fyrir dómstóla.

Viðbót 14.36, 8.3. 2013. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vill koma því á framfæri að telji stofnunin tilefni til að halda málinu áfram, yrði næsta skref að senda íslenskum stjórnvöldum áminningarbréf. Tveggja mánaða frestur yrði veittur til að svara því. Að því loknu myndi stofnunin senda rökstutt álit þar sem stjórnvöldum yrði aftur gefinn kostur á að bregðast við athugasemdum hennar. Einungis að því loknu væri komið að því að taka ákvörðun um hvort senda beri málið til EFTA-dómstólsins.