„Innbyggður hvati í hátt örorkumat“

Mynd: rúv / rúv
Stjórnvöld stefna að því að innleiða starfsgetumat í stað örorkumats og hafa gert árum saman. Nefndir hafa þaulrætt það en öryrkjar benda á að ekki liggur enn nákvæmlega fyrir hvað felst í hugtakinu. Spegillinn ræddi matið við Þorstein Víglundsson, félagsmálaráðherra, sem nýlega setti á fót enn eina nefndina, og Eygló Harðardóttur, forvera hans í starfi, sem síðastliðið haust hvarf frá áformum um að reyna að lögfesta tilraunaverkefni um starfsgetumat.

Ráðherra segir ungt fólk útskrifað á örorku

Málefni ungs fólks sem fer á örorkulífeyri vegna geðraskana hafa verið í deiglunni, sérstaklega málefni ungra karla. Nú er það svo að 10 af hverjum þúsund körlum undir þrítugu fá örorkulífeyri vegna geðraskana, um eitt prósent þeirra. Fyrir tíu árum átti þetta við um sjö af hverjum þúsund körlum.

„Það er þannig að þegar ungt fólk er að fara inn á örorku í þessum mæli, án þess að hafa fengið viðeigandi heilbrigðisþjónustu, bara sem dæmi, og nægilega langan endurhæfingarferil með tryggri framfærslu. Já þá erum við svolítið að gefast upp á fólki. Við verðum að hjálpa þessu fólki betur. Það er bara mjög nauðsynlegt,“ Þetta sagði Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Virk, í Speglinum fyrr í vikunni. Velferðarráðherra tekur undir með henni. 

„Ég er bara því miður sammála þessum ummælum. Ég held að núverandi fyrirkomulag okkar á örorkulífeyri sé engan veginn að taka á vandanum. Að hluta til erum við bara að gefast upp á að ná til þessa hóps og koma til virkni á nýjan leik og útskrifa þau á örorku þess í stað.“ 

Segir Þorsteinn Víglundsson.

Kvíði og þunglyndi helstu orsakir

Félagsvísíndastofnun rannsakaði orsakir þess að ungt fólk fer á örorku- eða endurhæfingarlífeyri að beiðni velferðarráðuneytisins í ráðherratíð Eyglóar. Í úrtakinu voru 834. Tæp 80% glímdu við geðraskanir eða voru með taugaþroskaraskanir, 20% glímdu við stoðkerfissjúkdóma. Af þeim sem glímdu við raskanir voru langflestir með þunglyndi eða kvíða, næstflestir með önnur geðræn vandamál, svo sem geðklofa og geðrof, því næst komu einhverfurófsraskanir.

Félagslegar aðstæður hafi oft áhrif

Í ljós kom að þriðjungur ungs fólks hafði lítinn stuðning fengið frá fagaðilum áður en það fór á lífeyri. Skýrslan leiddi í ljós að það reyndist fólki erfitt að fá aðgang að fagþjónustu. Börn bíða til dæmis lengi eftir greiningum og þar með þjónustu í skólakerfinu. „Þarna kom fram, eins og margoft hefur verið bent á, að erfiðleikar, það að hafa alist upp við erfiðar félagslegar aðstæður, það að hafa eignast börn ungur væru áhrifaþáttur í því að álagið verði einfaldlega of mikið og einstaklingur standi frammi fyrir því að þurfa að fá örorkumat,“ segir Eygló. 

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra útskýrir hvers vegna hún sat hjá við atkvæðagreiðslu um ríkisfjármálaáætlun og ríkisfjármálastefnu 2017 til 2020.
 Mynd: RÚV
Eygló Harðardóttir.

„Mikil hræðsla meðal öryrkja“

Eygló segir að það hafi alltaf verið skiptar skoðanir á því hvort gera skuli breytingar á örorkumatinu en það hafi orðið ofaná í Pétursnefndinni, sem hún skipaði, að skipta örorkumati út fyrir starfsgetumat. Ákvæði um það rataði í frumvarp um endurskoðun almannatryggingalaga í fyrrahaust en var tekið út aftur eftir að Öryrkjabandalagið gagnrýndi það. „Það sem hefur spilað mjög sterkt inn í er það að við höfum verið að fylgjast með því sem aðrar þjóðir eru að gera, ekki síst Bretar, og ég held það hafi bara vakið upp mikla hræðslu, ekki síst meðal öryrkja, við þessa breytingu.“

Í Bretlandi voru innleidd refsiákvæði, tekjur skertar ef örorkulífeyrisþegar tóku ekki þátt í virkniúrræðum. „Nálgunin virtist hafa verið mjög neikvæð, gagnvart einstaklingunum,“ segir Eygló.  

Vildi séríslenska nálgun

Hún segist hafa viljað þróa séríslenska nálgun og hafa velferð einstaklingsins í forgrunni, ekki sparnað. „Þarna var verið að tala um að bæta milljörðum inn í kerfið, til viðbótar. Á undanförnum árum hafa að frumkvæði aðila vinnumarkaðarins farið milljarðar inn í starfsendurhæfingu, við erum að setja miklu, miklu meiri peninga í að hjálpa fólki að ná aftur starfsgetu en það virðist ekki vera að skila sér, út frá þeim tölum sem við sjáum núna,  það held ég skýrist af því að það að fara inn á bætur almannatrygginga, að fara í gegnum starfsendurhæfingu, þú þarft að byrja svo miklu, miklu fyrr. Þannig að ef við erum að takast á við félagslega þætti þá erum við að tala um leikskólann, grunnskólann, foreldrafræðslu, það hvernig heilbrigðiskerfið styður við einstaklinga sem eiga við alvarlega geðsjúkdóma að stríða og bara, eins og ég barðist mikið fyrir, hlutir sem snúa að húsnæðismálum.“

Innbyggður hvati í hátt örorkumat

Þar sem ekki ríkti samstaða um starfsgetumatið ákvað Eygló að bíða með breytingar á framfærslukerfi öryrkja, horfa einungis til eldri borgara. Nú hefur félagsmálaráðherra skipað nýjan faghóp sem á að útfæra starfsgetumat. Ráðgert er að hann skili tillögum til ráðherra í nóvember. En hvaða skilning leggur hann í hugtakið? Fyrir utan það augljósa að horft sé til getu fremur en vangetu. „Þetta er grundvallarbreyting, horft til getu ekki vangetu og láta starfsendurhæfingarkerfið sem við höfum verið að byggja upp ríma betur saman við framfærslukerfið sem við bjóðum upp á. Leggja aukna áherslu á að styðja fólk til virkni á grundvelli þeirrar starfsgetu sem það hefur. Í dag erum við með marga galla á örorkulífeyriskerfinu. Það er töluvert stökk úr hlutaörorku yfir í fulla örorku eða meira en 75% þegar kemur að lífeyrisgreiðslunum sjálfum. Þarna er innbyggður hvati í tiltölulega hátt örorkumat til þess að geta tryggt fólki lágmarksframfærslu. Sú tillaga sem almannatrygginganefndin sem Pétur heitinn Blöndal leiddi á sínum tíma lagði upp með er að auka sveigjanleikann í þessu í gegnum starfsgetumatið, fjölga hlutamati en um leið auka hvata til atvinnuþátttöku sem er auðvitað lykilatriði, að þessi hópur hafi beinan fjárhagslegan ávinning af atvinnuþátttökunni.“

Spyrna þurfi við fjölgun örykja

Þorsteinn segist ekki eiga von á því að nýtt fyrirkomulag spari verulega fjármuni fyrir ríkissjóð en segir ljóst að spyrna verði við fótum þegar kemur að fjölgun öryrkja. „Við erum að horfa á það að fjölgun öryrkja og nýgengi örorku eins og það hefur verið hjá okkur á undanförnum árum, er í slíkum takti að til lengri tíma litið er það ósjálfbær þróun. Það er ljóst að við verðum að spyrna þar við fótum en útgangspunkturinn er alltaf sá sami, við verðum að horfa á einstaklingana á bak við þetta og tækifæri þeirra til betra lífs sem ég held að séu verulega skert í núverandi kerfi.“ 

Vildu ekki vera tilraunadýr

Öryrkjabandalagið gerði fjölmargar athugasemdir við frumvarpsdrög Eyglóar en gert var ráð fyrir að þriggja ára tilraunaverkefni með starfsgetumat hæfist strax í byrjun árs 2017. Öryrkjum fannst vera farið heldur bratt af stað, öryrkjar gerðir að tilraunadýrum með tilheyrandi óvissu og óþægindum. Þeir gagnrýndu að ekki væri á hreinu hvað nákvæmlega fælist í hugtakinu. Yrði starfsgetan metin í tveggja klukkustunda læknisheimsókn eða tæki matið mörg ár? Hvaða matstæki yrðu notuð? Á hvaða hugmyndafræði yrði byggt? Öryrkjar sögðu að leggja þyrfti auknar skyldur á atvinnuveitendur, ætti að vera hægt að innleiða starfsgetumat. Ekki væri nóg að horfa til starfsgetu einstaklingsins, það þyrfti líka að skylda vinnumarkaðinn til að koma til móts við hann og veita honum viðeigandi aðlögun. Þá gerði ÖBÍ kröfu um að sett yrðu lög sem banna mismunun á vinnumarkaði, svo sem á grundvelli fötlunar. Öryrkjar fóru fram á afnám krónu á móti krónu skerðingarinnar og að fjárhæðir almannatrygginga yrðu hækkaðar umtalsvert til að bæta upp fyrir kjaragliðnun fyrri ára.

Höfðu áhyggjur af aukinni fátækt

Öryrkjar gerðu líka athugasemdir við fyrirhugaða þrepaskiptingu, þrepin áttu að vera tvö og þeir sem metnir voru með meira en 50% starfsgetu áttu engar bætur að fá. Öryrkjabandalagið hafði áhyggjur af því hvernig þessi hópur fólks ætti að fara að því að framfleyta sér í hlutastarfi. Hugsanlega fengi fólk ekki vinnu, myndi enda á atvinnuleysisbótum, svo á framfærslu sveitarfélaga og vera verr sett en ella. Bandalagið lagði til að fólki með skerta starfsgetu yrði gefið aukið svigrúm til þess að fóta sig á vinnumarkaði án þess að greiðslur féllu niður.

Gæti sótt aftur um örorkumat

„Vegna þess að þessar áhyggjur komu fram var það þannig í tilraunaverkefninu að ef það lá fyrir að það var ekki að ganga hjá einstaklingnum að komast aftur inn á vinnumarkaðinn gæti hann farið aftur í gegnum hefðbundið örorkumat. Þá væri hann kominn með reynslu af starfsgetumati en það væri ekki lokað fyrir að hann gæti farið inn í það kerfi sem við erum með núna,“ segir Eygló. 

Eygló hefur enn trú á tillögunum frá í fyrra, segist ekki myndu breyta miklu, hefði hún aðkomu að ferlinu nú. „Ég myndi í raun leggja það sama til aftur, að það verði farið í tilraunaverkefni, að við látum á þetta reyna. Ég held það sé líka gífurlega mikilvægt að menn séu þá tilbúnir til þess að vera jafnvel með mismunandi útfærslur og skoða hvernig þetta kerfi virkar í raun og veru. Að við hættum að tala um það og förum að láta á það reyna og þá sé hlustað, hlustað á það sem fólkið sem er að nota kerfið sjálft er að segja.“

Hópurinn á að taka mið af fyrri tillögum

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, ráðuneytisstjóri, leiðir starf nýju nefndarinnar eða faghópsins. Í honum eiga sæti fulltrúar frá Vinnumálastofnun, Virk, Tryggingastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum aðila vinnumarkaðarins. Faghópurinn á svo að vinna með samráðshópi sem Öryrkjabandalagið á fulltrúa í. Á vef ráðuneytisins segir að þessir tveir hópar eigi að vinna saman að uppbyggingu nýs heildarkerfis og taka mið af tillögum sem þegar hafi verið lagðar fram. Hanna Sigríður telur ekki tímabært að tjá sig um vinnu hópsins sem aðeins hefur hist einu sinni frá því hann var skipaður í sumar. Þorsteinn getur ekki sagt til um hvort og þá að hvaða leyti áherslurnar verði frábrugðnar áherslum Eyglóar. Skoða þurfi þrepaskiptingu starfsgetumatsins með hagsmunaaðilum og kanna hvaða stuðning fólk þarf til að geta stundað vinnu. „Við þurfum líka að gæta þess að kerfið leyfi fólki að mistakast, það fái tækifæri til að spreyta sig í vinnu en geti þá átt auðvelda leið til baka í framfærslustuðning starfsgetumatsins ef það tekst ekki eða vinna reynist ekki henta. Aðalmálið er að framfærslan sé fyrir hendi en atvinnuþátttökuhvatinn sé líka mjög skýr.“

Þorsteinn orðar það þannig að fólk þurfi að geta fengið framfærslustuðning að nýju með tiltölulega auðveldum hætti, Eygló segir að tillögur hennar hafi gert ráð fyrir að fólk geti gengist aftur undir örorkumat, geti það ekki haldið áfram þátttöku á vinnumarkaði.

Mörg hlutastörf

Hvað varðar vinnumarkaðinn nefnir Þorsteinn að við búum vel að því leyti að fjöldi hlutastarfa sé hér hár miðað við nágrannalönd. Í samtali við Stundina sagði hann að ekki hefði verið lagt mat á hversu mörg störf eru til sem myndu henta sérþörfum öryrkja, en að það sé nú þegar til 812 milljón króna sjóður á vegum Vinnumálastofnunar sem veitir vinnuveitenda stuðning til að mæta sérþörfum launþega. Í fjármálaáætlun ríkisins 2018-2022 verði þessi fjárhæð hækkuð um 680 milljónir í nokkrum skrefum. 

Þorsteinn segir að kanna þurfi hvort það séu hindranir í vegi fyrir því að atvinnurekendur séu tilbúnir að ráða fólk út úr starfsendurhæfingu. Hann nefnir veikindaréttinn sérstaklega. Framkvæmdastjóri Virk segir dæmi um að fólk fái ekki endurráðningu í opinbera geiranum eftir veikindi þar sem það er fljótt að vinna sér inn veikindarétt og vinnuveitendur óttist að það veikist aftur.

„Hvað gerist ef veikindin taka sig upp? Þar þurfum við auðvitað að gæta að því að við séum að vinna vel með vinnumarkaðinum og ég er sannfærður um að þar getum við átt gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins, atvinnurekendur og stéttarfélög,“ segir Þorsteinn. 

Eygló telur líka mikilvægt að horfa til þess hversu sveiflukenndir sjúkdómar geta verið. „Þannig að það sé skilningur til að mæta þessu, þannig að fólk geti jafnvel komið og farið.“ 

Hvorugt þeirra nefnir aðra þætti, svo sem löggjöf gegn mismunun á vinnumarkaði.

Nýtt frumvarp lagt fram í vor

Þorsteinn stefnir að því að frumvarp um starfsgetumat verði lagt fram í febrúar eða mars. „Markmiðið er að ná að lögfesta í vor þannig að það sé nægur fyrirvari áður en breytingar tækju svo gildi, væntanlega um áramótin 2018, 2019.“ 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi