Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Innbyggð úrelding

09.03.2017 - 14:28
Þessi raftæki voru ekki endurunnin á viðeigandi hátt. Myndin er tekin á Miðnesheiði. - Mynd: RÚV / RÚV
Stefán Gíslason fjallar um tíðar bilanir raftækja í pistli sínum í dag.

 

Annað slagið skjóta upp kollinum sögur um ný raftæki með innbyggða úreldingu. Þá er átt við að framleiðandinn hafi komið fyrir í tækinu einhvers konar forriti eða öðrum búnaði sem sér til þess að tækið endist ekki lengur en svo að hægt sé að selja eigandanum nýtt tæki áður en langt um líður. Erfitt hefur hins vegar reynst að ganga almennilega úr skugga um hvort þessar sögur séu sannar eða ósannar, það er að segja hvort innbyggð úrelding sé staðreynd eða slúður.

Hvort sem innbyggð úrelding er staðreynd eða slúður, þá er hún að minnsta kosti nógu raunveruleg til að komast inn á borð Evrópusambandsins. Þar á bæ hefur málið verið á dagskrá í það minnsta frá því í október 2013 þegar efnahags- og félagsmálanefnd sambandsins (EESC) gaf út yfirlýsingu um mikilvægi þess að berjast gegn fyrirbærinu. Á ráðstefnu sem nefndin stóð fyrir í júní 2014 var samþykkt svonefnd Madrídaryfirlýsing um málið, þar sem m.a. kemur fram að baráttan gegn innbyggðri úreldingu ætti að vera einn af hornsteinum stefnumótunar um Evrópu framtíðarinnar. Rætt hefur verið um að Evrópusambandið innleiði algjört bann við fyrirbærinu, enda myndi slíkt bann hafa í för með sér fjölgun starfa og betri neytendavernd og vera mikilvægt skref í átt að sjálfbærri þróun. Sumir kynnu reyndar að telja að innbyggð úrelding fjölgi störfum, þar sem þá þurfi sífellt að vera að búa til ný tól og tæki, en í evrópsku samhengi er þetta ekki alveg svona einfalt, þar sem slík störf verða væntanlega einkum til í láglaunalöndum langt frá Brussel. Ef minnu væri kastað í Evrópu myndu hins vegar þúsundir starfa skapast í álfunni við viðhald hvers konar búnaðar.

Innbyggð úrelding er engan veginn nýtt fyrirbæri. Saga þess er gjarnan rakin aftur til ársins 1924 þegar Alfred P. Sloan Jr., forstjóri General Motors, lagði til að bílum fyrirtækisins yrði breytt lítillega með hverri árgerð til að sannfæra bílaeigendur um að þeir þyrftu að skipta um bíl. Hvatinn að þessu var að á þessum tíma var bílamarkaðurinn að mettast og menn sáu fram á minnkandi sölu. Reyndar átti nefndur Alfreð ekki upphaflegu hugmyndina, því að reiðhjólaframleiðendur voru búnir að uppgötva þetta á undan honum. Henry Ford fannst þetta afleit hugmynd, þar sem hann vildi leggja áherslu á einfaldleikann, hagkvæmni stærðarinnar og vandaða hönnun. Fordbílarnir voru allir svartir á lit, breyttust ekkert frá ári til árs og seldust vel. Og hvers vegna átti Ford þá að vera að rugga bátnum með því að ráðast í einhverjar breytingar, breytinganna vegna?

Hvort sem það var út af þessu eða einhverju öðru fór General Motors fram úr Ford í sölutölum árið 1931 og varð þar með stærsti bílaframleiðandi Bandaríkjanna. Ári síðar skrifaði Bernard London dálítinn bækling um það hvernig innbyggð úrelding gæti verið leiðin út úr kreppunni. Þar lagði hann til að stjórnvöld myndu beinlínis ýta undir innbyggða úreldingu til örva neyslu og viðhalda henni. Hugtakið sem slíkt virðist þó fyrst hafa fest í sessi eftir ræðu sem iðnhönnuðurinn Brooks Stevens flutti í Minneapolis 1954. Hann skilgreindi fyrirbærið þannig að það snerist um að „sá löngun í huga kaupenda til að eignast eitthvað aðeins nýrra, aðeins betra og aðeins fyrr en nauðsyn bæri til“.

Sú innbyggða úrelding sem lýst hefur verið í þessum sögulega inngangi og sú sem Evrópusambandið vill berjast gegn er ef til vill ekki sú sama og orðið á götunni segir að viðgangist nú til dags, það er að segja að framleiðendur komi beinlínis einhvers konar forritum eða öðrum búnaði fyrir í tækjum til að draga úr afköstum þeirra eða ráða beinlínis niðurlögum þeirra á einhverjum fyrirfram ákveðnum tíma í náinni framtíð.

Á dögunum gerði sænski fréttamiðillinn Aktuell hållbarhet dálitla rannsókn á því hvort innbyggð úrelding í nútíma skilningi ætti sér stað í raun og veru í raftækjaiðnaðinum. Kveikjan að þessu var m.a. könnun sem sýndi að 58% Svía trúa því að framleiðendur raftækja komi úreldingarbúnaði fyrir í tækjum sínum til að örva söluna. Meginniðurstaða Aktuell hållbarhet er sú að sögusagnir um þetta eigi ekki við rök að styðjast. Enginn einbeittur brotavilji framleiðenda skýri sem sagt stuttan endingartíma raftækja. Skýringanna sé miklu frekar að leita í kröfum neytenda um sífellt fullkomnari tæki á sífellt lægra verði. Þar að auki sé miklu frekar um að ræða efnahagslega úreldingu en tæknilega. Flest tækin mætti nota mun lengur en gert er, en ör tækniþróun sem drifin er áfram af mikilli eftirspurn, dæmi tækin úr leik eftir stutta veru á markaði. Snjallsímar eru gott dæmi um þetta, þar sem samskiptatæknin breytist óðfluga úr 2G í 3G, 4G og 5G, eða hvað þetta nú allt saman heitir. Samtímis koma fram ný smáforrit sem virka ekki nógu vel eða nógu hratt á eldri tækjum, og þess vegna bráðliggi neytendum á að kaupa nýjustu gerðina, ef svo má að orði komast.

Krafa neytenda um lágt verð á sinn þátt í að lélegri og endingarminni tæki eru sett á markað. Krafan um að tækin séu líka létt og handhæg getur sömuleiðis haft sitt að segja í þessu sambandi. Til að mæta þessum kröfum hefur framleiðslan færst inn í stórar verksmiðjur þar sem alls kyns örflögur og rafhlöður eru límdar saman í einn klump sem er bræddur inn í plast og drifinn á markað, þar sem fólk er jafnvel búið að tjalda fyrir utan verslanir til að verjast sárum raftækjaskorti sem annars sækir á það.

Í umfjöllun Aktuell hållbarhet er vitnað í Fredrik Bensen, þróunar- og upplýsingatæknistjóra hjá El-kretsen, sem rekur söfnunar- og endurvinnslukerfi fyrir raftækjaúrgang í Svíþjóð. Hann segir að neytendur kaupi einfaldlega of léleg tæki. Fyrir tveimur árum gerði El-kretsen könnun á viðgerðarmöguleikum þeirra tækja sem komu þangað inn. Aðeins 3% tækjanna voru þannig úr garði gerð að hægt væri að fá í þau varahluti og gera við þau með sæmilega auðveldum hætti. Fredrik telur málið snúast miklu fremur um lífsstíl okkar og forgangsröðun en um það að einhvers staðar þarna úti séu fyrirtæki sem lauma sjálfsmorðsbúnaði í tækin sín af einskærri illgirni. Tortryggni neytenda kunni að stafa öðru fremur af því að þegar eitthvað bilar sé engin leið að finna út hvað er að. Það þýði ekki lengur neitt fyrir venjulegt fólk að skrúfa tækin í sundur og rýna í innihaldið, auk þess sem þá falli ábyrgðin úr gildi.

Meginniðurstaðan úr þessu öllu saman er að innbyggð úrelding byggist ekki á andstyggilegum hvötum framleiðenda heldur á nýjungagirni neytenda. Vissulega ganga margir vasklega fram í að ýta undir nýjungagirnina, hvort sem málið snýst um raftæki, bíla, fatnað eða eitthvað enn annað. Tískan er víst harður húsbóndi. En samt er hollt að hafa í huga að framleiðendur geta ekki selt neitt sem neytendur vilja ekki kaupa.

Þegar allt kemur til alls á innbyggð úrelding líklega ekki lögheimili í lymskulegum tölvukubbum inni í einhverjum tækjum, heldur á einhverjum góðum stað á milli eyrnanna á okkur sjálfum.

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður