Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Innbrotahrina í Árnessýslu

29.02.2016 - 15:58
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Fjögur innbrot voru kærð til Lögreglunnar á Suðurlandi um helgina og eitt í síðustu viku. Brotist var inn í tvo sumarbústaði við Apavatn, Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum og í Hestakrána í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Fimmta innbrotið var í íbúð á Stokkseyri. Lögreglan rannsakar nú innbrotin, en sökudólgarnir hafa ekki fundist enn.

Samkvæmt heimildum Fréttastofu virðast sömu menn hafa verið á ferð í sumarbústöðunum við Apavatn, þar þóttu aðfarir þjófanna svipaðar. Fremur litlu var stolið úr bústöðunum, en töluverðar skemmdir unnar. Þá var stolið loki af heitum potti við sumarbústað í Laugardal, ekki langt frá. Áfengi var stolið í innbroti í Hestakrána á Húsatóftum á Skeiðum og þar voru líka urðu líka talsverðar skemmdir. Rúða var brotin í Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum og þaðan stolið skiptimynt. Loks var stolið verkfærum úr íbúð á Stokkseyri í innbroti í síðustu viku.

 

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV