Innanríkisráðherra ósammála forseta

03.09.2011 - 18:05
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er ósammála forseta Íslands um að tengsl kínversks fjárfestis, sem vill kaupa Grímsstaði á Fjöllum, við kínverska kommúnistaflokkinn skipti ekki máli. Stjórnvöld hljóti að líta til slíkra tengsla með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, fagnar fyrirhuguðum landakaupum kínverska fjárfestisins Huang Nobu á 300 ferkílómetrum af landi Grímsstaða á Fjöllum fyrir milljarð króna og segir enga ástæðu til að óttast fjárfestingar Kínverja. Þá skipti tengsl Nobu við kínverska kommúnistaflokkinn engu máli.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er þessu ósammála, en fjárfestirinn hefur óskað eftir undanþágu frá lögum vegna landakaupanna. Umsókn hans er í lögformlegu ferli í innanríkisráðuneytinu, og ráðherra kallar eftir almennri umræðu um málið.

„Það er mikilvægt að við stundum enga sjálfsblekkingu í þessari umræðu. Þegar við hugsum um hagsmuni Íslands þá hljótum við að horfa til tengsla við hugsanlega stórveldapólitík. Þau tengsl hljóta að skipta máli og koma til skoðunar. Mér finnst það bara gefa augaleið.“

Ólafur Ragnar vill að athafnamenn utan evrópu sitji við sama borð og evrópskir þegar kemur að fjárfestingum hér á landi.

„Við eigum náttúrlega ekki að mismuna fólki á grundvelli þjóðernis. En ég er að vísa til þess að við horfum þá líka til annarra tengsla þegar við erum að skoða málið málefnalega,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.