Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Innan við 20 manns í Árneshreppi í vetur

26.12.2018 - 19:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Við getum ekki sætt okkur við tafir á samgöngubótum á meðan við horfum á samfélagið hrynja til grunna, segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps. Innan við 20 manns búa nú þar allt árið.

Það eru fá ljós í gluggum í Árneshreppi. Þótt um 40 manns eigi þar lögheimili eru innan við 20 manns þar í vetur.  

„Það hefur náttúrlega fækkað mikið á undanförnum árum. Og einnig í haust, töluvert mikið,“ segir Ingólfur Benediktsson íbúi í hreppnum. „Tíu til tólf manns sem hafa flutt í burtu og þetta verður alltaf erfiðara og erfiðara.“

Versluninni var lokað í haust og skólinn var ekki settur. Eina barnið í sveitarfélaginu sækir skóla á Drangsnesi. Aðeins tveir undir sextugu hafa fasta búsetu í sveitinni. 

„Þetta er fyrst og fremst sauðfjársveit. Og hverjar eru aðstæður fyrir ungt fólk að hefja búskap? Það er orðið mjög erfitt. Það er rosalega dýrt að kaupa jörð og kaupa allar vélar. Og það að taka ákvörðun að gera það á stað sem er kannski að fara í eyði er eiginlega bara of stórt skref, fjárhagslega, fyrir fólk,“ segir Elín Agla Briem, íbúi í Árneshreppi. 

Íbúar telja marga þætti orsaka fólksfækkun en flestir telja slæmar samgöngur helstu ástæðuna. Vegurinn norður í Árneshrepp er ekki ruddur frá janúar fram í mars og íbúar lokast því inni. 

„Það vill enginn á 21. öld vera inni í sveitarfélagi sem er lokað af,“ segir Bjarnheiður Júlía Fossdal, íbúi í hreppnum. 

Íbúar kalla eftir því að einangrunin verði rofin, enda sé það brýnna nú en áður þegar ekki er verslun í sveitarfélaginu. Þá er kallað eftir heilsársvegi um Veiðileysuháls en framkvæmdum hefur ítrekað verið frestað.  

„Það á að lengjast í þessum biðtíma og það er ekki kostur sem við getum sætt okkur við þegar við erum að horfa á þetta samfélag hrynja til grunna,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi. 

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður