
Ingólfur hjá Glitni: „Ég les ekki Stundina“
„Ég les ekki Stundina og veit ekkert um málið,“ sagði Ingólfur þegar fréttastofa spurði hann hvort hann hefði séð nýjasta tölublaðið. Hann sagði að enginn hefði heldur greint honum frá efnistökum blaðsins.
Forsvarsmenn Stundarinnar segja að lögmenn þeirra meti það sem svo að þeim sé óhætt að halda umfjöllun sinni áfram. „Það er bara þeirra túlkun,“ segir Ingólfur, sem vill þó ekkert frekar tjá sig um hana. Hann vill heldur ekkert segja um það hver næstu skref Glitnis HoldCo í málinu verða.
Landsréttur felldi lögbannið úr gildi 5. október og frá og með þeim degi hafði Glitnir HoldCo fjórar vikur til að sækja um leyfi til að skjóta niðurstöðunni til Hæstaréttar. Í dag eru þrjár vikur liðnar.
Fréttastofa hefur reynt að ná tali af Ólafi Eiríkssyni, lögmanni Glitnis HoldCo, í morgun en án árangurs.