Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ingibjörg sögð hafa selt allan hlut sinn í Sýn

02.10.2018 - 10:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
365 miðlar, sem eru í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, hafa selt allan hlut sinn í Sýn fyrir tæpa tvo milljarða króna og keypt ríflega þriggja prósenta hlut í Högum fyrir hátt í 1,8 milljarða króna. Greint er frá þessu á vef Fréttablaðsins, þar sem jafnframt er sagt frá því að gengið hafi verið frá viðskiptunum í morgun.

365 miðlar voru þriðji stærsti hluthafi Sýnar með tæplega 11 prósenta hlut en félagið eignaðist hlutinn í kjölfar kaupa Sýnar á öllum eignum og rekstri ljósvakahluta 365 miðla og Vísis.

Félagið seldi nánar tiltekið 32.380 þúsund hluti í Sýn á genginu 61,5 krónur á hlut fyrir um 1.991 milljón króna. Þá keypti félagið 36.900 þúsund hluti í Högum - ríflega þriggja prósenta hlut - á genginu 47,5 krónur á hlut. Nam kaupverðið þannig 1.753 milljónum króna.

Fréttablaðið segir að félög tengd Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur, aðaleiganda 365 miðla sem á einmitt líka Fréttablaðið í gegnum Torg ehf., hafi átt fyrir yfir tveggja prósenta hlut í Högum, einkum í gegnum fjármögnun hjá Kviku.

Viðskipti 365 hafa ekki verið tilkynnt til Kauphallarinnar. Hins vegar kemur fram að viðskipti með bréf í Sýn í morgun hafa numið rúmum 2 milljörðum króna og viðskipti með bréf í Arion 1,8 milljörðum. 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV