Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ingibjörg Haraldsdóttir ljóðskáld látin

08.11.2016 - 13:21
Mynd með færslu
 Mynd: - - Forlagið
Ingibjörg Haraldsdóttir ljóðskáld og þýðandi er látin 74 ára að aldri. Ingibjörg lærði kvikmyndagerð í Moskvu og bjó og starfaði í Havana á Kúbu að því loknu fram til 1975. Fyrsta ljóðabók hennar kom út árið 1974, en eftir Ingibjörgu liggja fimm ljóðabækur, tvö ljóðasöfn og endurminningabók.

Hún var afkastamikill þýðandi; úr rússnesku, spænsku og fleiri málum. Hún þýddi helstu stórvirki rússnesku skáldanna Fjodors Dostojevskí og Mikhails Búlgakov, leikrit Tsjekov og Túrgenév, auk ljóða rússneskra, sænskra, kúbanskra og annarra skálda í Rómönsku Ameríku.

Fékk íslensku bókmenntaverðlaunin 2002

Ingibjörg fékk íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2002 fyrir ljóðabókina Hvar sem ég verð auk þess sem bókin var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Fyrir þýðingar sínar hlaut hún meðal annars íslensku þýðingarverðlaunin og menningarverðlaun DV. Ingibjörg lætur eftir sig tvö börn og þrjú barnabörn.

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV