Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Illugi til Kína með Orku Energy

07.04.2015 - 23:32
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra fór í vinnuferð til Kína í síðasta mánuði, ásamt fulltrúum frá Orku Energy. Illugi starfaði hjá því fyrirtæki á meðan hann tók sér hlé frá þingstörfum eftir bankahrunið.

Í ferðinni var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf Íslands og Kína á sviði vísinda og rannsókna. Greint er frá því á vefnum hringbraut.is að Illugi sé á launum hjá Orku Energy sem ráðgjafi. Þetta komi fram á vef Alþingis, þar sem fjallað sé um fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf utan þings. Í svari frá aðstoðarmanni Illuga við fyrirspurn fréttastofu í kvöld kemur fram að ráðherrann hafi löngu látið af störfum hjá Orku Energy.

Hann hafi starfað hjá fyrirtækinu á meðan hann tók sér hlé frá þingstörfum í kjölfar bankahrunsins, og það hafi verið handvömm að breyta ekki hagsmunaskráningunni á Alþingisvefnum.

Í hagsmunaskránni kemur einnig fram að Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sitji sem launaður stjórnarmaður í Eignarhaldsfélgi Brunabótafélags Íslands, og að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fari með launað starf hjá Skipulagsráði Reykjavíkur. Þessar upplýsingar eru í báðum tilvikum úreltar, og enginn ráðherra mun því í reynd gegna launuðu aukastarfi.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV