Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Illugi og Ólöf kveðja ráðherrastóla sátt

11.01.2017 - 12:52
Mynd: RÚV / RÚV
Illugi Gunnarsson, fráfarandi mennta- og menningarmálaráðherra, sagði á síðasta ríkisráðsfundi sínum að það væri alltaf ákveðin eftirsjá að stjórnmálum. Hann væri þó ánægður með ákvörðun sína að snúa til annarra verka. Ólöf Nordal, fráfarandi innanríkisráðherra, segir að hún sé ánægð með kjörtímabilið. Forgangsröðunin verði þó að vera rétt og nú setji hún sjálfa sig í fyrsta sæti.

Illugi Gunnarsson hefur verið á þingi síðan 2007 og hefur setið í ráðherrastóli síðan 2013. Illugi sagði í sólinni á Bessastöðum að nú væri sól í sinni. „Ég hafði ákveðið að snúa til annara verka og það var ákvörðun sem ég tók og ég er mjög ánægður með þá ákvörðun. En ég er líka mjög ánægður með þann sem kemur í það embætti sem ég hef gegnt, þannig þetta er góður dagur.“

Ólöf Nordal sat á Alþingi frá árinu 2007 til ársins 2013 og var skipaður utanþingsráðherra í kjölfar afsagnar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur árið 2014. Hún hlaut svo aftur kjör til þingsetu árið 2016. Ólöf segir að merkilegur tími sé að baki. „Ég er mjög ánægð með það sem hefur gerst á þessu kjörtímabili og óska nýjum ráðherra til hamingju. Þetta hefur verið skemmtilegt og lærdómsríkt.“

Aðspurð hvort hún hafi ekki viljað halda áfram að vera ráðherra segist hún fyrst og fremst vilja hafa fulla starfsorku. „Það þarf maður að gera ef maður ætlar að vera ráðherra, maður verður að hafa forgangsröðina rétta.“ Ólöf jánkaði því að hún myndi því setja sjálfa í fyrsta sæti. „Já,já, ég verð það og ég held að allir skilji það.“