Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Illa sviknir af fjárlagafrumvarpi Katrínar“

14.12.2017 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Barnafólk og milli- og lágtekjufólk er illa svikið af fjárlagafrumvarpinu. Þetta segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Barna- og vaxtabætur séu ekki auknar og engin aukning sé til húsnæðismála. Þá sé skattkerfið ekki notað til að auka jöfnuð.

„Fyrstu viðbrögðin eru þau að fyrir hönd barnafólks, milli- og lágtekjufólks, þá eru þetta mikil vonbrigði. Og þessir hópar eru illa sviknir af fjárlagafrumvarpi Katrínar. Við erum að tala um 2% breytingu á útgjöldum ríkisins frá frumvarpi Benedikts. Engar barnabætur auknar, engar vaxtabætur og það er engin aukning í húsnæðismálum. Það er auðvitað hækkun í mennta- og húsnæðismálum en það er ekki hægt að tala um neina stórsókn þar. Og í samgöngumálum erum við að tala um 1,6 milljarða í aukningu en formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að það vanti 15 milljarða svo hægt sé að fjármagna samgönguáætlun,“ segir Logi.

Það á að skila ríkissjóði með 35 milljarða afgangi, teljið þið að það hefði átt að taka eitthvað af því fé í þessa liði sem þú nefnir?

„Nei alls ekki. Við teljum nefnilega tekjuliði stjórnvalda vanrækta. Núna á hátindi hagsveiflunnar hefði til dæmis átt að afla tekna. Það hefði átt að nýta það til þess að búa til varanlegar tekjur fyrir þau útgjöld sem þarf að ráðast í vegna innviða á næstu árum. En síðan er það auðvitað líka sjónarmið okkar og Vinstri grænna að nota skattkerfið til tekjujöfnunar almennings. Það er brýnt að minnka ójöfnuð hér í landinu og skipta birgðum jafnar. Og það er ekki gert í þessu frumvarpi.“

En eins og þú nefnir, þá eru framlög til heilbrigðis-, mennta- og samgöngumála aukin, er það ekki jákvætt?

„Það er auðvitað jákvætt en það er ekki í samræmi við það sem talað var um og lofað fyrir kosningar. Fyrir utan að þetta er ekki sjálfbært að því leyti til að það er ekki sýnt fram á hvernig þessi tekjustraumur eigi að vera varanlegur vegna þess að það er verið að taka af afgangi og við vitum alveg í hagkerfi eins og á Íslandi að það getur margt breyst. Og hvað ætla menn að gera þá? Á þá að herða að og kyrkja velferðarkerfið?“ segir Logi.