Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Illa fengin gögn notuð til að snúa kjósendum

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Persónuupplýsingar um 50 milljóna manna af Facebook voru notaðar til að búa til umfangsmikinn gagnagrunn um bandaríska kjósendur. Facebook hefur bannað tvö fyrirtæki frá samfélagsmiðlinum vegna málsins. 

Fyrirtækin Cambridge Analytica og SCL Group fengu reisupassann frá Facebook í gær vegna alvarlegra ásakana, sem eiga raunar rætur sínar að rekja aftur til ársins 2014. Þá hafði Cambridge Analytica fengið leyfi frá Facebook til þess að gera könnun með eigin smáforriti, og nota upplýsingar um notendur Facebook sem söfnuðust með könnuninni til vísindarannsókna. Fyrirtækið greiddi þátttakendum fyrir að taka þátt í könnuninni, sem var nokkurs konar persónuleikapróf.

Reiknað út frá „lækum“

Breska dagblaðið Observer hefur eftir Christopher Wylie, sem var starfsmaður Cambridge Analytica á þessum tíma, að fyrirtækið hafi safnað upplýsingum frá um 50 milljónum manna af Facebook með smáforritinu. Nokkur hundruð þúsund tóku þátt í persónuleikaprófinu, en það sem þeir vissu ekki var að smáforritið sótti einnig upplýsingar um vini þeirra á samfélagsmiðlinum.
Búið var til reiknirit út frá upplýsingunum sem forritið safnaði. Nokkrir tugir „læka" á Facebook geta gefið þeim sem kunna með gögnin að fara nokkuð skýra mynd af því hvert notendur sveigjast á pólitíska ásnum. 

Steve Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, var stjórnandi Cambridge Analytica á þessum tíma. Gögnin voru einmitt notuð til þess að finna óákveðna kjósendur fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016. Á þeirra tímalínur lentu kostaðar auglýsingar sem áttu að snúa þeim á sveif með Trump. Talið er að gögnin hafi hjálpað til við að koma auglýsingum til milljóna kjósenda.

Ekki gagnaþjófnaður

Eins og áður segir ákvað Facebook í gær að banna Cambridge Analytica og SCL Group frá samfélagsmiðlinum vegna misnotkunar á gögnum. Facebook neitar því hins vegar að upplýsingarnar sem söfnuðust hafi verið gagnaþjófnaður. Þeim hafi verið safnað á löglegan hátt, en reglur samfélagsmiðilsins hafi verið brotnar þegar þær voru seldar þriðja aðila.

Samkvæmt gögnum sem Observer hefur fengið að sjá, og var svo staðfest í yfirlýsingu Facebook, fékk samfélagsmiðillinn veður af umfangi upplýsingasöfnunarinnar þegar árið 2015. Wylie sýndi Observer einnig bréf sem hann fékk frá lögmönnum Facebook þar sem hann er beðinn um að eyða öllum gögnum sem hann hefði í fórum sínum frá upplýsingaöfluninni. Facebook gekk hins vegar ekki á eftir því hvort gögnunum hafi verið eytt.

Segjast ekki hafa gögn frá Facebook

Samkvæmt Guardian er Cambridge Analytica ekki aðeins til rannsóknar vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2016. Tvær nefndir breska þingsins eru einnig með fyrirtækið til rannsóknar vegna þess að talið er að það hafi notað sams konar aðferð við Brexit-kosningarnar.

Alexander Nix, framkvæmdastjóri Cambridge Analytica, kom fyrir þingnefnd í Bretlandi í febrúar vegna rannsóknar nefndarinnar á útbreiðslu falskra frétta. Þar sagði hann Cambridge Analytica ekki vinna með gögn frá Facebook og fyrirtækið hafi ekki yfir að ráða neinum gögnum frá Facebook. Simon Milner, stjórnandi Facebook í Bretlandi, tjáði þingnefndinni einnig að engin gögn frá Facebook gæti verið að finna hjá Cambridge Analytica. Wylie sýndi Observer hins vegar sönnunargögn sem eru á skjön við vitnisburð Milners og Nix.

Nix þessi hélt erindi á haustráðstefnu Advania í Hörpu í fyrra. Á vef ráðstefnunnar segir að erindi hans fjalli um hvernig gagnalíkön og sálfræðigreiningar geti gagnast fyrirtækjum við að byggja upp persónulegt samband við viðskiptavini og hvernig gögn og skapandi vinna reiði sig algerlega á hvort annað. Þá segir að fyrirtæki hans kortleggi hegðun og áhrifavalda neytenda út frá gagnagnótt. Donald Trump er sagður meðal viðskipta vina fyrirtækis hans á vef ráðstefnunnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV