Illa farið með mikilvægasta efnið

Mynd með færslu
 Mynd:

Illa farið með mikilvægasta efnið

07.07.2014 - 15:54
Stefán Gíslason fjallar í pistli sínum í dag um mikilvægi jaraðvegsins.Pistilinn má líka lesa hér að neðan.

Í Sjónmálspistlum síðustu mánaða hefur stundum verið minnst á hin ólíklegustu efni sem notuð eru í landbúnaði nútímans, þar á meðal efni á borð við neónikótínoíð og Roundup svo eitthvað sé nefnt. Eitt tiltekið efni hefur þó fengið minni athygli í þættinum en það á skilið, og reyndar hefur líka farið tiltölulega lítið fyrir því í almennri umræðu um landbúnað og matvælaframleiðslu. Þetta efni sem mörgum yfirsést er þó líklega það mikilvægasta af þeim öllum. En nú er mannkyninu vandi á höndum, því að efnið verður sífellt sjaldgæfara og gæði þess minni. Og það er hreint ekki auðvelt af útvega sér nýtt efni í stað þess sem tapast. Þetta efni er jarðvegur.

 Jarðvegseyðing í heiminum hefur aldrei gengið hraðar fyrir sig en einmitt núna. Þannig hefur Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) áætlað að um 25% af öllu landi jarðarinnar sé mjög illa farið og enn á niðurleið, en ástand fari batnandi á aðeins 10% lands. Um það bil einn og hálfur milljarður manna byggir afkomu sína á svæðum þar sem jarðvegseyðing er verulegt vandamál og næstum helmingur af fátækustu jarðarbúunum búa á slíkum svæðum. Ástandið á þessum svæðum er mjög óstöðugt og það ógnar aftur friði og pólitískum stöðugleika á miklu stærri svæðum. Fólksflótti frá þeim svæðum þar sem ástandið er verst er ein birtingarmynd vandans. Þannig er áætlað að fram til ársins 2020 muni um 60 milljón manns flytja sig frá eyðimerkursvæðum sunnan Sahara til nyrstu ríkja Afríku og til Evrópu. Hvernig sem á málið er litið er jarðvegseyðing vandamál í öllum heimsálfum, og auðvitað kemur hún ekki aðeins niður á bændum, heldur á öllum jarðarbúum.

 Ástæðurnar fyrir versnandi ástandi jarðvegs eru margar, en eru þó flestar angi af sama meiði. Grunnurinn að þessu er í flestum tilvikum einfaldlega ofnotkun. Sem dæmi má nefna að eyðing skóga í Kína hefur leitt til gríðarlegrar jarðvegseyðingar og sama má segja um ofnotkun beitilands í vesturríkjum Bandaríkjanna. Á Indlandi hefur ofnýting skóga og annars jarðargróðurs dregið úr frjósemi jarðvegs og ógnað tilveru ýmissra villtra lækningajurta. Og um allan heim hefur mikil gróðurmold tapast vegna plæginga á landbúnaðarsvæðum þar sem allt er gert til að hámarka uppskeru til skamms tíma. Þannig er áætlað að 55 milljónir tonna af gróðurmold tapist á ári hverju vegna ræktunar sojabauna í Brasilíu. Svona þarf þetta ekki að vera, enda augljóst að ef jarðvegur eyðist hraðar en hann myndast verður jörðin að endingu að eyðimörk. Það er líka vel hægt að stunda landbúnað og framleiða fæðu ofan í jarðarbúa án þess að því fylgi stórfelld jarðvegseyðing. En þá dugar ekki að taka alltaf meira og meira af næringarefnum úr jarðveginum og skila bara nokkrum þeirra til baka og jafnvel bara að hluta. Til þess að koma í veg fyrir jarðvegseyðingu þarf að huga vandlega að því sem lagt er inn og tekið út, rétt eins og í venjulegu heimilisbókhaldi.

 Jarðvegseyðing er alls ekki afmarkað vandamál, heldur á hún sinn þátt í öðrum af helstu vandamálum samtímans, þar með töldum loftslagsbreytingum. Heilbrigður jarðvegur er nefnilega ríkur af kolefni og þegar gæði jarðvegsins rýrna losnar þetta kolefni út í andrúmsloftið og bætist þar við aðra losun af mannavöldum. Og þetta er reyndar gagnkvæmt, því að loftslagsbreytingar geta líka stuðlað að jarðvegseyðingu.

 Í síðasta mánuði minnti hugveitan Food Tank á nokkur verkefni sem stuðla að endurheimt jarðvegsgæða og uppbyggilegri umræðu um þau mál. Á þessum lista kennir margra grasa, allt frá fræðslumyndum sem sýna mikilvægi jarðvegsverndar á auðskilinn hátt upp í einstök verkefni, stór og smá, þar sem unnið er að því að vernda og endurheimta jarðveg á einstökum svæðum. Nokkur þessara verkefna snúast um ræktunaraðferðir, þar sem m.a. er lögð áhersla á skiptiræktun til að komast hjá því að taka sífellt meira og meira af einstökum efnum úr jarðveginum án þess að nokkru sé skilað til baka. Í þessari upptalningu er m.a. sagt frá rannsóknum Matt Liebman og félaga við Ríkisháskólann í Iowa í Bandaríkjunum, sem benda til að með skiptiræktun sé hægt að auka uppskeru og draga um leið verulega úr notkun tilbúins áburðar, illgresiseyðis og eldsneytis. Þetta eru svo sem engin ný sannindi, en svo virðist að mönnum hafi gengið misvel að tileinka sér þau.

 Það er reyndar alveg óþarfi að leita langt út í heim eftir dæmum um jarðvegseyðingu og aðferðir til að berjast gegn henni, því að Ísland er jú eitt þeirra landa sem hefur virkilega þurft að berjast gegn hnignun af þessu tagi. Þar er Landgræðsla ríkisins augljóslega í aðalhlutverki enda hefur starfið sem þar er unnið vakið athygli víða um lönd. Margir tengja líklega Landgræðsluna helst við frekar afmörkuð verkefni á borð við sáningar og dreifingu áburðar, en viðfangsefnið er auðvitað miklu víðtækara. Það snýst um að stöðva eyðingu jarðvegs og gróðurs, auk áherslu á fræðslu, leiðbeiningar, rannsóknir og þróunarstarf. Landgræðslan nefnist á ensku The Soil Conservation Service, sem útleggst einmitt sem Jarðvegsverndarstofnunin þegar heitið er þýtt til baka yfir á ástkæra ylhýra málið. Þarna er sem sagt unnið að því að vernda þetta mikilvægasta efni í fæðuframleiðslu heimsins. Það vill líka svo skemmtilega til að þjóðhátíðardagur Íslands er einmitt alþjóðlegur dagur jarðvegsverndar með áherslu á baráttuna gegn eyðimerkurmyndun og þurrkum.

 Eins og svo mörg önnur verkefni á umhverfissviðinu snýst verndun jarðvegs um að átta sig á heildarmyndinni í stað þess að einblína á einn tiltekinn þátt og skeyta hvorki um samhengi hlutanna né langtímaáhrif. En því miður eimir sums staðar enn eftir af „hinum gamla húsgangshætti, að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama, hvort gerður er stórskaði öldum og óbornum“, svo vitnað sé í orð Þorvaldar Thoroddsen eftir ferð hans um Múlasýslur árið 1894. Það er til að mynda svolítið sérstakt að í landi eins og Íslandi, þar sem eyðimerkurmyndun er eitt stærsta umhverfisvandamálið, skuli menn enn þann dag í dag urða tugi þúsunda tonna af lífrænum úrgangi á hverju ári. Allur þessi úrgangur gæti nýst í baráttunni gegn jarðvegseyðingu ef rétt væri á málum haldið. Hér, sem víðar, þurfum við að muna að „landið tilheyrir framtíðinni“. Við eigum ekki þetta land. Við erum bara með það að láni frá komandi kynslóðum.