Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Íhugar bótamál eftir að börnin voru tekin burt

19.12.2018 - 14:58
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Afgönsk móðir fimm barna hefur fengið börnin sín aftur til sín eftir að þau voru tekin í umsjón barnaverndaryfirvalda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögmanni konunnar. Konan var handtekin snemma í nóvember vegna gruns um að hún væri ekki raunveruleg móðir barnanna. Á sama tíma voru börnin tekin úr umsjá hennar og vistuð hjá fósturforeldrum.  

Lögreglan óskaði eftir því að gerð yrði lífssýnarannsókn til að kanna skyldleika konunnar og barnanna. Skúli Jónsson yfirlögregluþjónn staðfestir við fréttastofu RÚV að niðurstöður lögreglurannsóknarinnar liggi fyrir og engar efasemdir séu um að börnin séu raunverulega hennar. Í framhaldinu, eða þann 3. desember, fóru börnin aftur til móður sinnar. 

Flosi H. Sigurðsson lögmaður konunnar segir að hún hyggist senda kvörtun til Persónuverndar vegna þess að persónugreinanlegar upplýsingar um hana hafi verið veittar vefmiðlinum Vísi og hyggst jafnframt gera kröfu gagnvart viðkomandi aðilum vegna miska sem konan telur sig hafa orðið fyrir. Flosi segir í samtali við fréttastofu að konan kunni einnig hugsanlega að kvarta til Barnaverndastofu vegna framgöngu barnaverndarinnar í málinu.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV