Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Íhuga að banna humarveiðar við Ísland

18.04.2018 - 04:13
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ástand humarstofnsins við Íslandsstrendur er svo bágborið að það er aðeins tímaspursmál hvenær humarveiðar verða bannaðar, að óbreyttu. Þetta segir Jónas Páll Jónsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun í viðtali sem birt er í nýjasta tölublaði Fiskifrétta. Í erindi sem Jónas hélt um sögu humarveiða hér við land í síðustu viku kom fram, að þær hafa farið síminnkandi undanfarin ár. Nýliðun í stofninum hefur verið afleit frá 2005 og rannsóknir benda til þess svo verði áfram.

Í erindi Jónasar kom fram að humarveiðar við Ísland hafi alltaf verið sveiflukenndar, en nýliðun stofnsins þó aldrei verið metin jafn lítil og nú.  Viðmiðunarstofn humars hefur líka minnkað hratt síðustu ár og ekki verið minni frá 1980, segir Jónas í erindi sínu og veltir því fyrir sér, hvers vegna humarveiðar séu yfir höfuð stundaðar enn, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um stöðu stofnsins.

Í viðtali við Fiskifréttir áréttar Jónas þetta. Segir hann að dregið hafi verið jafnt og þétt úr veiðunum síðustu ár og í raun sé spurningin ekki hvort heldur hvenær þær verði bannaðar, ef ekki verður breyting til hins betra. Annar möguleiki sé þó að ráðleggja litlar eða engar veiðar, þetta sé spurning um aðferðafræði, enda fáist verðmætar upplýsingar um ástand stofna með veiðum úr þeim.

Mest veiddist af humri árið 1963, eða um 6.000 tonn. Síðustu fiskveiðiár hefur uppgefin heildarveiði oftast verið undir 2.000 tonnum og undir 1.500 tonnum síðustu þrjú fiskveiðiár. Á fiskveiðiárinu 2016-2017 komu innan við 1.200 tonn af humri á land. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV