Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Icesave-sagan öll

22.09.2015 - 16:39
Mynd: Landsbankinn Landsbankinn / Landsbankinn Landsbankinn
Rekistefna vegna Icesave er á enda eftir samkomulag við Breta og Hollendinga. Í ljósi EFTA-dómsins í Icesave-málinu vekur það kannski athygli að Tryggingasjóðurinn borgaði en dómurinn sneri að ríkinu, ekki sjóðnum. Með samkomulaginu var fallist á kröfurnar en þær aðeins greiddar að hluta.

,,Þetta er endanleg lausn, þessi saga er á enda,” sagði Coen Gelinck talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins í samtali við Spegilinn í morgun. Umrædd sögulok eru í deilu Hollendinga og Íslendinga vegna Icesave. Sama gildir um Breta, Icesave-málinu lokið af þeirra hálfu.

Málalokin eru þau að bresk og hollensk yfirvöld fá greidda þá tuttugu milljarða króna sem Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta átti við fall bankanna. Sjóðurinn er fjármagnaður með sama hætti og sams konar sjóðir víða annars staðar, það er með framlögum frá fjármálafyrirtækjum sem eiga aðild að sjóðnum og njóta tryggingar hans.

Eins og kunnugt er bættu yfirvöld í löndunum tveimur innstæður á Icesave-reikningum þarlendra. Í neyðarlögunum voru innstæður gerðar að forgangskröfum. Þar með fást innstæðurnar greiddar úr þrotabúi Landsbankans, ljóst að eignir búsins duga fyrir þeim og þegar búið að greiða um 85% af þeirri upphæð. Það þýðir reyndar að almennir kröfuhafar Landsbankans fá sáralítið úr búinu en það er önnur saga.

En fyrst eignir búsins duga til að greiða innstæðurnar að fullu hvað eru þá Hollendingar og Bretar að fara fram á umfram það? Svarið er að þeir eru að fara fram á vexti og kostnað.

Alveg frá 2011 hefur Tryggingasjóðurinn verið reiðubúinn til að greiða hollenskum og breskum yfirvöldum það sem til var í sjóðnum upp í kröfur þeirra. Þessu var hafnað því mun minna var í boði en Bretar og Hollendingar vildu. Og þar bar töluvert á milli.

Samkvæmt upplýsingum hollenska talsmannsins námu vaxta- og kostnaðarkröfur Hollendinganna 167 milljónum evra eða 24 milljörðum króna. Þeir fá nú 48 milljónir evra, það er sjö milljarða króna, eða tæplega þriðjung þess sem þeir kröfðust.

Kröfur Bretanna voru mun hærri en þær hollensku enda mun meira inni á bresku Icesave-reikningunum en þeim hollensku. Spegillinn hefur ekki fengið uppgefið hver breska krafan var en hún gæti hugsanlega hafa verið allt að ferföld krafa Hollendingana. Bretar fá 13 milljarða króna sem er sennilega hlutfallslega mun minna en Hollendingar uppskera.

En af hverju er verið að greiða þessar kröfur úr því EFTA dómstóllinn úrskurðaði 2013 í Icesave-málinu að ríkið bæri ekki ábyrgð á Tryggingasjóðnum? Ástæðan er einföld. Tryggingasjóður er ekki ríkið heldur sjálfseignarstofnun svo dómurinn varðaði ekki sjóðinn.

Skyldur sjóðsins eru alveg klárar, honum ber að tryggja innstæður. Sjóðurinn hafði þegar viðurkennt hollensku og bresku kröfurnar en vildi ekki greiða meira en hann átti þegar bankarnir féllu. Um það var deilt.

Haustið 2013, það er eftir að EFTA dómurinn féll höfðuðu bresk og hollensk yfirvöld mál á hendur Tryggingasjóði fyrir íslenskum dómi, fóru þar fram á bæði höfuðstól, vexti og kostnað, samtals 556 milljarða króna. Heildar Icesave-innlánin voru hins vegar alls um 1200 milljarðar sem hefðu þá getað verið hinar ítrustu kröfur.

Tilgangur dómsmálsins virtist vera að láta reyna á ábyrgð sjóðsins þar sem EFTA dómurinn varðaði aðeins ríkisábyrgðina. Með samkomulaginu nú falla þessi málaferli þeirra niður, krafan er viðurkennd og Tryggingasjóður greiðir það sem til var þegar bankarnir féllu.

Þessi viðurkenning á kröfu Breta og Hollendinga er fréttnæm en aðaltíðindin eru þó gjaldeyrisviðskiptin sem fylgdu samkomulaginu – það er, að Seðlabankinn veitti víðtækari undanþágur frá fjármagnshöftum en bara vegna samkomulagsins.

Tryggingasjóður átti tæplega 7,5 milljarða í gjaldeyri en keypti gjaldeyri fyrir það sem upp á vantaði. Undanþágan sem laut að greiðslu sjóðsins til hollenskra og breskra yfirvalda nam þessum umsömdu tuttugu milljörðum. Í öðru lagi var veitt undanþága fyrir greiðslu Landabankabúsins upp á 9,5 milljarða króna til hollenskra og breskra yfirvalda, hluti af forgangskröfunum. Alls fengu löndin tvö því tæpa þrjátíu milljarða í þessari umferð og um leið lækkaði gjaldeyrisforði Seðlabankans sem því nam.

Spegillinn hefur spurst fyrir um hver hafi átti frumkvæðið að samkomulaginu en ekki fengið skýr svör við því. Eins og einn viðmælandi sagði þá hefur verið fundað um þessi mál í mörg ár og svo hittast menn hér og þar á öðrum vettvangi. Á einhverjum tímans punkti þykir nóg komið og viljinn til að ljúka málinu vegur þyngra en fjárhagsleg útkoma. Þess vegna er Icesave sagan nú á enda.

jongk's picture
Jón Guðni Kristjánsson
Fréttastofa RÚV