Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Icesave-krafa gæti farið fyrir dómstóla

20.08.2013 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Milljarða kröfur breskra og hollenskra yfirvalda á Tryggingasjóð innistæðueigenda gætu endað fyrir íslenskum dómstólum. Krafan er gerð vegna vaxta og kostnaðar sem varð til þegar yfirvöld í þessum löndum greiddu lágmarkstryggingu vegna Icesave reikninga gamla landsbankans.

Breski tryggingasjóðurinn og Hollenski seðlabankinn ákváðu veturinn 2008 að greiða innstæðueigendum Icesave reikninganna í þessum löndum lágmarkstryggingu, og gerðu síðan kröfu á hendur íslenskum yfirvöldum um endurgreiðslu - um þetta snerist Icesave deilan og samningarnir tveir sem báðir voru felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Deilan endaði síðan fyrir EFTA-dómstólnum þar sem niðurstaðan var að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á vaxtagreiðslum.

Tryggingasjóðurinn ber hins vegar ábyrgð - og á hann gera Bretar og Hollendingar nú kröfu, segir Guðrún Þorleifsdóttir, formaður stjórnar sjóðsins. „Það er annars vegar krafa um greiðslu kostnaðar vegna útgreiðslunnar sem þeir lögðu og í öðru lagi greiðsla vaxta vegna innstæðna.“

Stjórn tryggingasjóðsins komst að þeirri niðurstöðu árið 2011 að þeir peningar sem voru til staðar í sjóðnum þegar bankarnir féllu - um sextán milljarðar króna - væru til greiðslu til Breta og Hollendinga. En stjórnin setti ákveðin skilyrði. „Þeir yrðu að framselja alla kröfuna til sjóðsins. Það vildu þeir ekki fallast á - töldu ekki réttmæta kröfu. Af þeim sökum varð aldrei af því að féð yrði greitt út,“ segir Guðrún.

Kröfurnar sem Bretar og Hollendingar gera nema milljörðum króna - en Guðrún segir að greiðslan verði hins vegar aldrei hærri en sú upphæð sem er til staðar í tryggingasjóðnum - það falli því ekki á ríkissjóð að standa undir þessum kröfum. Deilan er óleyst og eins og fram kemur í nýjustu ársskýrslu tryggingasjóðsins, gæti hún endað fyrir dómstólum.