Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Icesave hindraði uppgjör vegna hrunsins

15.06.2018 - 10:03
Mynd með færslu
 Mynd: Hannesarholt.is
Icesave, Landsdómsmálið og stjórnarskrármálið höfðu þau áhrif að breytingar á stjórnmálum voru minni en vonir stóðu til eftir hrun. Þetta segir Vilhjálmur Árnason siðfræðingur.

Í haust eru tíu ár liðin frá efnahagshruni og af því tilefni stendur Félag stjórnmálafræðinga fyrir ráðstefnu í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. Á ráðstefnunni heldur Vilhjálmur erindið Höfum við ekkert lært? Hugleiðingar um hrunið og lærdóma af því. Hann ræddi við Morgunútvarpið á Rás tvö í morgun. „Þingheimur lýsti einróma yfir eftir hrun umbótavilja, og að þeir ætluðu að bæta menningu sína og setja sér siðareglur og svona, en síðan gerðust bara hlutir í samfélaginu sem að ég held að hafi virkilega komið í veg fyrir að við höfum dregið nægilega vel lærdóm af þessu, sérstaklega á stjórnmálasviðinu,“ segir Vilhjálmur.

Hann nefnir þar sérstaklega þrennt. „Það er Icesave-málið. Icesave-deilan var held ég alveg gríðarlegur skaðvaldur í samfélaginu,“ segir Vilhjálmur. Deilan hafi skipt þjóðinni í fylkingar. „Og kannski stærri fylkingin vildi síður að við horfðum í eigin barm heldur beindum sjónum okkar út á við, en það sem við þurftum mest á að halda á þessum tíma var að allir litu í eigin barm og skoðuðu sinn hlut.“

„Annað var Landsdómsmálið,“ segir Vilhjálmur. Hann segir mjög óheppilegt að einn maður hafi verið látinn axla þar ábyrgð. „Það gengur ekki að einn maður standi fyrir dómi fyrir það sem var svona flókið samspil margra hluta.“ 

Þriðja málið hafi verið stjórnarskrármálið. „Ég held að margir stuðningsmenn þess hafi litið á það sem of mikla patentlausn,“ segir Vilhjálmur. Þá hafi margir ekki getað sætt sig við stjórnarskrárbreytingar í skrefum, það hafi þurft að vera allt eða ekkert.