Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Icelandair kaupir WOW air

05.11.2018 - 11:57
Flugvél Wow Air þurfti að lenda á öðrum hreyflinum á Keflavíkurflugvelli vegna bilunar skömmu eftir flugtak.
 Mynd: RÚV
Stjórn Icelandair Group hefur samið um kaup á öllu hlutafé í flugfélaginu WOW air. Kaupin eru meðal annars gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Icelandair Group, samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Í tilkynningu sem Icelandair sendi Kauphöllinni rétt fyrir hádegi segir að sem greiðslu fyrir hlutafé WOW Air muni hluthafar WOW air, að uppfylltum skilyrðum, eignast alls ríflega 272 milljón hluti eða sem samsvarar um 5,4 prósentum hlutafjár Icelandair Group eftir viðskiptin. Skráð markaðsverð Icelandair er um 38 milljarðar íslenskra króna. Miðað við það nemur kaupverðið á WOW rétt rúmum 2 milljörðum íslenskra króna. 

Þar af eru rúmlega 178 milljón hlutir eða sem nemur 3,5% hlutafjár í Icelandair greiðsla fyrir hlutafé í WOW. Greiðslan getur hækkað í 4,8% og lækkað í 0% út frá ákveðnum forsendum í tengslum við áreiðanleikakönnun.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að rúmlega 94 milljónir hluta eða sem samsvarar 1,8% hlutafjár séu gefnar út til seljenda vegna breytingar á víkjandi láni í hlutafé. 

Seljendur hafa skuldbundið sig til að halda hlutum sínum í Icelandair Group í að minnsta kosti 6 mánuði og helming hlutanna í að minnsta kosti 6 mánuði til viðbótar.  

Félögin verða áfram rekin undir sömu vörumerkjum en sameiginleg markaðshlutdeild þeirra á markaðnum yfir Atlantshafið er um 3,8%. Í tilkynningunni segir að með yfirtökunni skapist tækifæri til sóknar á nýja markaði og auk þess er gert ráð fyrir að kostnaður Icelandair Group muni lækka. Félagið verði þannig enn betur í stakk búið til þess að veita erlendum flugfélögum öfluga samkeppni á hinum alþjóðlega flugmarkaði.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV