Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Icelandair í viðræður um kaup á flugfélagi

19.09.2018 - 23:55
Mynd með færslu
Boeing 757-200 vél sem Cabo Verde Airlines er með á leigu frá Icelandair Mynd: Diego - Wikipedia
Flugfélaginu Icelandair hefur verið boðið til viðræðna um að eignast ráðandi hlut í ríkisflugfélagi Grænhöfðaeyja þegar það verður einkavætt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnvöldum á Grænhöfðaeyjum. Vefritið Aviator greinir frá þessu. Þar segir að Icelandair hafi verið valið úr hópi þeirra fyrirtækja og fjárfesta sem lýstu áhuga á að taka þátt í einkavæðingu Cabo Verde Airlines, til að ganga til viðræðna við stjórnvöld um að gerast kjölfestufjárfestir í félaginu.

Nú taki við samningaviðræður um kaup Icelandair á allt að 51 prósents hlut í félaginu en hin 49 prósentin á að selja til annarra kaupenda, með áherslu á fyrirtæki og fjárfesta með tengsl við Grænhöfðaeyjar. Ekki er getið um verð á flugfélaginu í tilkynningu stjórnvalda, segir í frétt Aviator, en tekið fram að takist samningar ekki við Icelandair þá hefjist leit að öðrum kjölfestufjárfesti. 

Cabo Verde Airlines var stofnað 1958 og varð ríkisflugfélag Grænhöfðaeyja þegar þær urðu sjálfstætt ríki 1975. Það var ráðandi í innanlandsflugi á Grænhöfðaeyjum til skamms tíma en eftir endurskipulagningu félagsins og fyrirhugaða einkavæðingu heyrir það sögunni til. Nú er öll áhersla lögð á að tengja Ameríku, Afríku og Evrópu. 

Hátt í 800 manns starfa hjá flugfélaginu, sem á tvær Boeing-þotur og leigir fleiri slíkar, þar á meðal tvær af Icelandair.  Formlegt samstarf hefur verið á milli félaganna síðan stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum undirrituðu samstarfssamning við dótturfélag Icelandair, Loftleiðir Icelandic, á síðasta ári. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV