Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Iceland Airwaves á Akureyri 2017

Mynd með færslu
 Mynd: © Florian Trykowski - www.floriantrykowski.de

Iceland Airwaves á Akureyri 2017

01.12.2016 - 11:13

Höfundar

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves verður haldin á Akureyri auk Reykjavíkur á næsta ári. Stefnt er að því að nota tvo til þrjá tónlistarstaði á Akureyri og að fram komi á bilinu 20 til 26 innlend og erlend tónlistaratriði. Jafnframt verða utandagskrártónleikar, svokallað off venue, á völdum stöðum. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir að Airwaves sé með þessu að vissu leyti komin heim. Það hafi lengi staðið til að færa út kvíarnar til Akureyrar.

„Og líka að bjóða bæði ungum hljómsveitum sem eru hér á svæðinu og síðan fólki sem býr hér og fólki á landsbyggðinni á Airwaves. Það er mikilvægt að það séu ekki bara útlendingar sem koma á Airwaves og síðan að útlendingar komi í höfuðstað Norðurlands. Það hefur verið planið lengi,” segir hann. 

Það hafi verið gerlegt fyrst núna þar sem Icelandair og Flugfélag Íslands hafi nú ákveðið að bjóða upp á ferðapakka fyrir erlenda gesti sem geta þannig byrjað dvöl sína á Akureyri og endað í Reykjavík, með beinu flugi frá Keflavík til Akureyrar. 

Airwaves komin heim

Grímur segir að það sé ekki alveg ljóst hvaða staðir verði lagðir undir hátíðina á Akureyri, en þó sé ákveðið að Græni hatturinn verði einn þeirra. Þá eru engin listamannsnöfn opinberuð, en ljóst er að það verður eitthvað þungaviktarfólk sem kemur fram. Og svo bendir Grímur á að að vissu leyti sé Iceland Airwaves komið heim með þessu. Vorið 1999 hafi kviknað hugmynd að bjóða áhrifafólki úr tónlistarheiminum að sjá íslenska tónlistarmenn og það var gert á Akureyri.

Mynd með færslu
Tilkynnt var strax eftir síðustu Airwaves hátíð að hún myndi færa út í kvíarnar til Akureyris í ár. Mynd: Atli Þór Ægisson - RÚV
Áformin voru kynnt á blaðamannafundi á Græna hattinum í morgun.

„Það var farið hingað og á Sjallann og síðan yfir á barinn á móti sem ég veit ekki hvað hét þá, en það voru spiluð hér Dead Sea Apple og fleiri hljómsveitir, Toy Machine, sem voru hér í góðu stuði í frekar vondu veðri. Og þetta var fræið sem varð síðan að Iceland Airwaves þá um haustið,” segir hann. 

Nítjánda hátíðin

Á hátíðinni í ár komu um 220 lista­menn fram á tæp­lega 300 tón­leik­um á tón­list­ar­hátíðinni í Reykjavík og voru gestir um 9.000 tals­ins. Árið 2017 verður Iceland Airwaves haldin í 19. skipti og fer hún fram dagana 1. til 5. nóvember, í Reykjavík og á Akureyri. Að venju verða 13 tónleikastaðir í höfuðborginni undirlagðir af tónlist og Akureyri bætist svo við. Almenn miðasala hefst miðvikudaginn 1. febrúar.

Tengdar fréttir

Gólfið í Silfurbergi nötraði - Airwaves

Reykjavík kraumar af kátínu - Airwaves dagur 3

Airwaves

Örugga kynslóðin: Iceland Airwaves´16 Special