Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Íbúum Norðurlands vestra fækkaði mest

Djúpivogur
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Íbúum á Djúpavogi fækkaði um 48 á síðasta ári og má segja að um tíundi hver íbúi hafi flutt burt. Þetta kemur fram í nýjum mannfjöldatölum frá Hagstofu Íslands. Mest fólksfækkun var á Norðurlandi vestra sé litið til einstakra landshluta.

Áhrif af breytingum hjá Vísi mest á Djúpavogi

Íbúar í Djúpavogshreppi voru 470 þann 1. janúar 2014 en árið síðar hafði þeim fækkað niður í 422. Sem kunnugt er fór Vísir með starfsemi sína frá Djúpavogi til Grindavíkur í fyrra og flutti fólk af staðnum vegna þess. Vísir fór einnig með starfsemi frá Húsavík og Þingeyri og fækkaði íbúum Norðurþings um 22 í fyrra en íbúum á Þingeyri fjölgaði um fimm. Íbúum Grindavíkurbæjar fjölgaði um 107 í fyrra.

Fjölgun í Fjarðabyggð

Athygli vekur að í Fjarðabyggð fjölgar íbúum um 72 og voru þeir 4.747 í byrjun árs og sker sveitarfélagið sig nokkuð úr hvað mannfjöldatölur á Austurlandi varðar. Íbúum í Fljótsdalshreppi fjölgaði um 7 og eru þeir 75 talsins. Íbúum á Fljótsdalshéraði fækkaði hinsvegar um 9 en hafði áður fjölgað ár frá ári. Þar bjuggu 3.454 um síðustu áramót. Íbúum á Seyðisfirði fækkaði um 12 og voru þeir 653 talsins og íbúum í sveitarfélaginu Hornafirði fækkaði um 17 og voru þeir 2150 um síðustu áramót. Íbúar á Vopnafirði voru 674 talsins á sama tíma og fækkaði um 21 á einu ári. Þar með er nánast horfin fjölgun sem var á Vopnafirði síðustu tvö árin þar á undan. Þá fækkaði um einn íbúa í Breiðdalshreppi en fjölgaði um einn á Borgarfirði eystra.

Alls fækkaði í íbúum á Austurlandi um 28 á árinu 2014 og voru þeir 12.496 um áramót en þá er Hornafjörður talinn með. Ljóst að enn fleiri hafa flutt af svæðinu ef náttúrleg fjölgun fæddra umfram látna er talin með en þær tölur liggja ekki fyrir.

Mest fækkun á Norðurlandi vestra

Landsmönnum fjölgaði um 1% í fyrra. Í frétt hagstofunnar segir: „Mikil fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu en þar voru íbúar 2.530 fleiri 1. janúar 2015 en ári fyrr. Það jafngildir 1,2% fjölgun íbúa á einu ári. Hlutfallslega varð fólksfjölgunin hins vegar mest á Suðurnesjum, þar sem fjölgaði um 2,1%, eða 466 frá síðasta ári. Fólki fjölgaði einnig á Suðurlandi, um 280 einstaklinga (1,1%), og um 125 (0,8%) á Vesturlandi. Minni fólksfjölgun var á Norðurland eystra (0,5%). Fólksfækkun var á þremur landsvæðum, Norðurlandi vestra þar sem fækkaði um 108 manns, eða 1,4%,  á Austurlandi en þar fækkaði um 28, eða 0,2% og á Vestfjörðum þar sem fækkaði um tvo eða 0,02%.“