Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íbúðir ekki hækkað jafn lítið í verði í sjö ár

18.09.2018 - 18:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íbúðaverð hefur ekki hækkað jafn lítið á einu ári í sjö ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði. Íbúðaverð hefur hækkað um 4,1 prósent á undanförnum 12 mánuðum.

Í tilkynningunni kemur fram að áfram hægir á verðhækkunum á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Árshækkun íbúðaverðs hafi mælst 5,2 prósent í júlí. Verð á íbúðum í fjölbýli hafi hækkað um 3,2 prósent á undanförnu ári en sérbýli um sex prósent. 

Þróun raunverðs íbúað hafi breyst talsvert á skömmum tíma. Í maí hafi árshækkun íbúðaverðs verið 21,5 prósent að raunvirði en en hafi aðeins hækkað um 1,4 prósent að raunvirði undanfarna tólf mánuði ef vísitala íbúðaverðs er borin saman við vísitölu neysluverðs. „Þrátt fyrir að hægt hafi á verðhækkunum er raunverð íbúða enn hátt í sögulegu samhengi eða um 4 prósentum hærra en þegar það var hæst í síðustu uppsveiflu árið 2007,“ segir í tilkynningunni. 

Alls var 728 kaupsamningum vegna íbúða þinglýst í ágúst, um 15 prósentum fleiri en í júlí og 46 prósentum fleiri en í águst í fyrra. Frá september í fyrra og til ágúst í ár hafi álíka mörgum kaupsamningum verið þinglýst og síðustu 12 mánuði á undan.