Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íbúðarkaupin voru strembin, segir kaupandi

09.08.2018 - 21:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
„Þetta tók lengri tíma en ég bjóst við og var strembið,“ segir 26 ára kona sem var að kaupa íbúð í fyrsta sinn. Kaupendur fyrstu íbúðar voru 900 á öðrum fjórðungi ársins og hafa ekki verið fleiri síðan Þjóðskrá byrjaði að mæla fyrir tíu árum. Þeir voru um 27% kaupenda íbúða að því er fram kemur í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Vaka Helgadóttir er ásamt kærastanum, Birki Pálmasyni, að fara að skrifa undir kaupsamning eftir nokkra daga á þeirra fyrstu íbúð. 

„Það tók alla vega lengri tíma en ég bjóst við og alveg strembið ferli að mörgu leyti.“

Eru ekki svo margir nýir hlutir sem maður þurfti að læra og að kynna sér?

„Jú. Við skoðuðum mikið á netinu og margar góðar síður þar. Fórum líka tvisvar upp í banka og fá bara smá ráðgjöf þar sem var rosagott.“

Sífellt fleiri fá aðstoð frá fjölskyldu sinni við fyrstu íbúðakaup.

„Við erum náttúrulega tvö og höfðum það að geta búið í heimahúsi, vera ekki að leigja á þessum tíma þannig að það var mjög mikil hjálp.“

Þið hafið verið að safna í einhvern tíma?

„Já, já, það er alveg búið að taka, þetta kemur ekki si svona.“

Þannig að þetta hafðist samt með hjálp?

„Já, þetta hafðist með mikilli og góðri hjálp,“ segir Vaka. 

Ólafur Heiðar Helgason hagfræðingur Íbúðalánasjóðs segir að það sé ánægjuleg útkoma að mun fleiri hafi verið að kaupa sér fyrstu íbúð sína á öðrum ársfjórðungi. 

„Við sáum það að í síðustu mánaðaskýrslu að fyrstu kaupendur eru að meðaltali að verða eldri. Hlutfallslega fleiri fyrstu kaupendur fá stuðning frá fjölskyldu sinni við kaupin. Það voru svo ákveðin áhyggjuefni. En núna sjáum við það að fyrstu kaupum er að fjölga.“

Hvað lestu út úr því?

„Ja, íbúðaverð hefur auðvitað hækkað minna það sem af er þessu ári heldur en það gerði á sama tíma í fyrra. Á sama tíma þá hafa vextir haldist lágir í sögulegu samhengi og hvoru tveggja er þetta eitthvað sem að hjálpar fyrstu íbúðakaupendum.“ 

Íbúðaverð á landsbyggðinni hækkaði meira á öðrum fjórðungi ársins en íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu. 

„Ef við tökum til dæmis íbúð í fjölbýli á Akranesi, að þá kostaði hún 40% minna heldur en sambærileg íbúð í Reykjavík fyrir ári síðan. Núna aftur á móti þá er þessi munur bara 30%.“ 

Íbúðaverð hefur líka hækkað töluvert í sveitarfélögum sem eru fjær höfuðborgarsvæðinu en Akranes. Verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað hraðar en verð í fjölbýli. Frá því í maí í fyrra hefur verð í sérbýli hækkað 7% meira en verð í fjölbýli. Íbúðalánasjóður hefur ekki tölur um meðalverð annars vegar í sérbýli og hins vegar fjölbýli. En miðgildi kaupverðs í kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu er um 45 milljónir króna.  

„Sem þýðir að um helmingur íbúða kostar meira en 45 milljónir og helmingur minna. Þannig að það er svona sem hin dæmigerðu íbúðakaup á höfuðborgarsvæðinu, þannig líta þau út,“ segir Ólafur Heiðar. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV