Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íbúðalánasjóður rannsaki húsnæðismarkað

10.04.2018 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hlutverk Íbúðalánasjóðs breytist samkvæmt nýju frumvarpi um breytingar á húsnæðislögum. Hlutverk sjóðsins verður meðal annars að sjá um og beita sér fyrir rannsóknum á húsnæðismálum, upplýsa almenning um stöðu húsnæðismála og meta þörf fyrir búsetuúrræði. Í frumvarpinu er einnig skerpt á hlutverki sveitarfélaga og Alþingis. Markmið þess er að skýra hlutverk stjórnvalda á húsnæðismarkaði.

Helstu verkefni sveitarfélaga verður að greina þörf á íbúðarhúsnæði og tryggja það að þessari þörf sé mætt með nægilegu framboði á lóðum. Áætlanir um þessa þörf skulu gerðar til fjögurra ára í senn. Einnig ber sveitarfélögum að leysa húsnæðisþörf íbúa og koma til móts við þá sem þurfa aðstoð í húsnæðismálum.

Í frumvarpinu kemur einnig fram að ráðherra skuli boða til húsnæðisþings á hverju ári. Þar á að fara yfir stöðu og þróun húsnæðismála og stendur til að hafa þingið opið öllum. Með því á að tryggja aðkomu hagsmunaaðila. Gert er ráð fyrir að ráðherra nýti umræður húsnæðisþingsins, gögn Íbúðalánasjóðs og áætlanir sveitarfélaga við gerð þingsályktunartillögu um stefnumótun í húsnæðismálum. Stefnumótunina á að gera til fjögurra ára í senn. 

Í frumvarpinu segir að þær áætlanir sem gerðar hafi verið í húsnæðismálum síðustu ár hafi ekki verið fullnægjandi og það sanni staðan sem nú er á húsnæðismarkaði.

Á Íslandi eru 73% heimila í eigin húsnæði. Hlutfallið er hæst í Noregi þar sem 80% heimila eru í eigin húsnæði og lægst í Danmörku þar sem um helmingur heimila er í eigin húsnæði. Í Noregi eru flest sér- og tvíbýli eða um 60%. Hæst hlutfall fjölbýlishúsa eru í Svíþjóð og á Íslandi eða um 58% í Svíþjóð og 49% á Íslandi.
 

 

bjorgg's picture
Björg Guðlaugsdóttir