Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Íbúar hræddir þegar þeir aka um Bláskógabyggð

06.03.2018 - 19:37
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Íbúar í Bláskógabyggð eru hræddir þegar þeir aka um holótta vegi sveitarfélagsins þar sem mikill fjöldi ferðamanna fer um á leið að Geysi. Þetta segir fulltrúi í sveitarstjórn og hvetur ráðamenn til að grípa til aðgerða. Ráðamönnum var boðið í ökuferð í dag frá Selfossi að Laugarvatni, Reykholti og Geysi til að sýna þeim holur og malbiksskemmdir.

Samgönguráðherra, vegamálastjóra og þingmönnum Suðurkjördæmis var boðið í ökuferðina. Hvorki ráðherra né vegamálstjóri komust með í ferðina en tveir af þingmönnum Suðurkjördæmis þáðu boðið.

Fyrsti áfangastaður er Grímsnes. Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, segir vegina um Grímsnesi vera mjög slæma. „Það eru að byrja að myndast holur. Ef ekkert verður að gert bara núna í sumar þá verður þessi vegur algjörlega ófær eftir bara ár,“ segir Helgi. 

Sveitarstjórnin hefur lýst þungum áhyggjum af ástandi vegakerfisins. „Daglega verða vegfarendur fyrir óhöppum við að fara um vegina s.s. að sprengja dekk og eyðileggja felgur. Slík óhöpp skapa einnig mikla hættu þeirra vegfarenda sem eru að ferðast um á sama tíma,“ segir í fundargerð sveitarstjórnar frá 1. mars sl. 

Reykjavegur tengir Laugavatn og Reykholt. Hann er gamall malarvegur og holurnar eru margar. Skólabíll þarf að aka Reykjaveg daglega. 

Guðrún S. Magnúsdóttir, fulltrúi í sveitarstjórn Bláskógabyggðar, segir ökuferðina hafa verið ákall til ráðamanna. „Við höfum miklar áhyggjur af samgöngumálum her og teljum þetta vera brýnasta verkefnið hér bara til þess að tryggja öryggi okkar íbúa. Eins og landsmenn vita þá er þetta gríðarlega fjölfarið, nánast 100% ferðamanna fara hér um. Íbúar eru orðnir bæði þreyttir og hreinlega hræddir að fara hérna um,“ segir Guðrún. 

Hugrún Jóhannsdóttir er bílstjóri rútunnar í dag. „Ég reyni að keyra miðað við aðstæður. Oft hægi ég alveg niður í 60-70 þegar holurnar eru verstar,“ segir Hugrún og bætir við að holurnar séu margar. „Já, þær eru ekki teljanlegar, þær eru það margar,“ segir Hugrún. 

Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á suðursvæði, viðurkennir að ástandið veganna sé slæmt. „Það hefur nú verið langversta ástandið hérna á Biskupstungnabraut á kaflanum frá Bræðrahnjúkavegi upp að Múla. Það stendur til að bjóða út bara í næstu viku styrkingu á þeim kafla, samtals 7,5 kílómetrar, skipt í tvo hluta. Þannig að það verður lagfært í sumar. Síðan er búið að bjóða út og á að vinna í sumar styrkingu á Laugarvatnsvegi fyrir neðan Laugarvatn, 4-5 kílómetrar.  Svo verður vonandi haldið áfram við það á næstu þremur árum cirka,“ segir Svanur.