Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Íbúar á Suðurnesjum fara mest í Costco

22.08.2017 - 12:03
Garðbæingar eyða hærri upphæðum í Costco en allir aðrir samkvæmt tölum frá Meniga sem birtar voru í Kastljósi. Það eru þó ekki íbúar höfuðborgarsvæðisins sem fara hlutfallslega mest í verslunina heldur þeir sem búa á Suðurnesjum. Vesturland er svo í öðru sæti.

Meniga hefur skoðað gögn frá um 7000 Íslendingum sem segja áhugaverða sögu um þau áhrif sem Costco hefur á verslunarvenjur Íslendinga. Um 70% Íslendinga hafa farið í búðina og varið um 74 þúsund krónum að meðaltali á mánuði. Rétt er að taka fram að inni í þessari tölu eru allar vörur í Costco, þar með talið bensín.

Þeir sem á annað borð versla í Costco verja að meðaltali um 13% af reglulegum og óreglulegum útgjöldum í búðinni. Það vekur nokkra athygli að þótt Garðbæingar fari mest í Costco eru það íbúar Suðurnesja sem eru í fyrsta sæti þegar heimsóknum er skipt eftir landsvæðum. Íbúar á Vesturlandi eru í öðru sæti. Kristín Hrefna Halldórsdóttir, viðskiptastjóri hjá Meniga, sagðist í Kastljósi telja að þarna mætti sjá merki þess að íbúar þessara svæða væru aftur farnir að fara til höfuðborgarsvæðisins til að gera magninnkaup.