Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Íbúar á Drangsnesi bíða betra netsambands

15.07.2016 - 15:40
Drangsnes strandir vestfirðir bæjir Hús aðalgata
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Íbúar á Drangsnesi fá aðgang að Ljósneti í september og mun þá netsamband í bænum bætast til muna. Búnaðinum var skipt út og símstöðvar uppfærðar í júní en vegna reglna Póst- og fjarskiptastofnunar þurfa íbúar að bíða fram í september eftir því að geta nýtt sér endurbæturnar.

Kaldraneshreppur og Póst-og fjarskiptastofnun gengu frá samkomulagi um að leggja til fjármagn til að bæta netsamband á Drangsnesi. Netsambandið hefur verið svo slæmt að íbúar hafa jafnvel keyrt í annað sveitarfélag til að komast í gott netsamband.

Míla kom að verkinu í júní og hefur nú skipt út búnaði og uppfært símstöðvar og því verður Ljósnet í boði fyrir íbúa. Mílu ber að tilkynna breytingar sem þessar vegna samkeppnissjónarmiða til Póst- og fjarskiptastofnunar með þriggja mánaða fyrirvara. Míla tilkynnti breytingarnar 15. júní og því geta íbúar á Drangsnesi ekki nýtt sér þjónustuna að fullu fyrr en 15. september. Finnur Ólafsson, oddviti Kaldrananeshrepps, hefur sótt um undanþágu hjá stofnuninni sem en þeirri umsókn var hafnað.

Sigurrós Jónsdóttir, samskipta- og markaðsstjóri hjá Mílu, segir að við endurbætur á kerfinu hafi netsamband sjálfkrafa batnað hjá íbúum Drangsnes en að til dæmis þjónusta eins og sjónvarp um netið þurfi að bíða fram í september.

Þegar fréttastofa heimsótti grunnskólann á Drangsnesi á vormánuðum hafði skólastjóri áhyggjur af samræmdum prófum en nú er ljóst að þjónusta Ljósnetsins verður komin í gagnið áður en samræmd próf fara fram en þau eru tekin á netinu.

Míla hefur einnig unnið að því að uppfæra símstöðvar í Súðavík og er einnig gert ráð fyrir að íbúar geti pantað þjónustu um Ljósnetið frá og með 15. september.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður