Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Í skapandi óreiðu Weimar-lýðveldisins

Mynd:  / 

Í skapandi óreiðu Weimar-lýðveldisins

01.03.2019 - 13:02

Höfundar

Næstkomandi sunnudag hefst sýning á þýsku þáttaröðinni Babýlon Berlín á RÚV og verður fróðlegt að fylgjast með henni, hún mun vera dýrasta sjónvarpsþáttaröð sem gerð hefur verið á öðru máli en ensku og einnig hefur hún hlotið mikið lof gagnrýnenda og áhorfenda. En það er þó ekki þáttaröðin sjálf sem hér er til umfjöllunar, heldur reyfararnir sem að baki standa, en það er óhætt að telja þá til mestu metsölubóka á þýskum markaði undanfarinn áratug.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Þegar ég nældi mér í fyrstu kiljuna í ritröðinni árið 2016 hafði hún komið út í 47 prentunum eða útgáfum sem bendir til að salan hafi verið þokkaleg frá frumútgáfuárinu 2008.  

Höfundur bókanna um rannsóknalögreglumanninn Gereon Rath í Berlín á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar heitir Volker Kutscher og kynnir sig svo á titilsíðum að hann hafi áður lagt stund á „brauðlausar listir þýskra fræða, heimspeki og sagnfræði“. Vafalaust á hann bæði fyrir brauði og heilmiklu áleggi núna, en hann hefur gefið út sjö bækur alls í röðinni og hafa þær allar hlotið gríðargóðar viðtökur og verið þýddar á fjölmörg erlend mál, þó ekki íslensku og kemur það mér mjög á óvart miðað við hve mikið er þýtt af glæpasögum á íslensku þessi árin. 

Gallaður með góða fleti

Þetta eru í grunninn rökkurkrimmar að norrænni fyrirmynd, aðalsöguhetjan er að vísu ekki miðaldra, fráskilinn karl með magasár eða eitthvað annað verra, heldur fremur ungur lögreglumaður sem lenti í einhverju óhappi í starfi sínu í Kölnarborg. Hann rétt heldur starfi sínu fyrir áhrif valdamikils föður síns sem kippir í spotta og kemur honum til Berlínar þar sem honum er komið fyrir í siðspillingardeildinni, en hann blandast síðan inn í rannsókn hjá morðdeildinni sem þá er undir stjórn manns sem kallaður er „Búdda“, vegna vaxtarlagsins, en á fundum hjá honum er boðið upp á rjómatertur ef menn eru í náðinni. Gereon Rath er þannig klassísk skálduð rannsóknalögga, gallaður maður með góða fleti og í grunninn heiðarlegur þótt hann verði stundum að gera málamiðlanir sem honum líka ekki. Kvenhetjan og kærasta Raths, Charlotte Ritter, á sér heldur ekki alveg óflekkaða fortíð, en hún er að læra lög og hyggst leggja fyrir sig lögreglustörf í framtíðinni.

Heillandi sögusvið

Sagan hefst á óróatímum í Weimar-lýðveldinu svokallaða, kommúnistar og nasistar eru á uppleið og berjast um áhangendur meðal verkalýðsins. Tíminn sem höfundur velur fyrir fyrstu bókina er sagnfræðilega athyglisverður, þetta er svonefndur Blóðmaí, en mikil átök urðu í kringum 1. maí árið 1929, en opinberar mótmælagöngur höfðu verið bannaðar frá árinu 1924. En þarna sauð upp úr og myndar þessi tími bakgrunninn að glæpasögunni sjálfri. Þetta virðist hafa verið markmið höfundar, að setja fram þessa óróatíma í þýskri sögu og leyfa lesendum að sjá þá með beinni hætti í gegnum frásögn af þessu tagi heldur en hægt er að gera með sagnfræðilegum verkfærum eingöngu, þótt vissulega sé þekkt að á því sviði grípi menn til ímyndunaraflsins, stundum svo um munar. 

Sögusviðið sjálft heillar þannig ekkert síður en sagan, jafnvel frekar í sumum tilvikum. Bókaflokkurinn hefst rétt áður en hrunið verður á Wall Street, en Þjóðverjar höfðu þá þegar gengið í gegnum óðaverðbólgu eftirstríðsáranna og þótt tekist hafi að koma á nokkrum stöðugleika upp úr 1924 stóðu bæði efnahagur og stjórnskipulag völtum fótum á þessum árum eins og átti eftir að sýna sig með valdatöku nasista á fjórða áratugnum, en þeir komust til valda gengum lýðræðislegar kosningar og með stuðningi íhaldsmanna á Ríkisþinginu í Berlín. Þeir kveiktu síðan í þinghúsinu eins og frægt er orðið og óf Kutscher þann atburð býsna vel inn í eina söguna í flokknum. Í þeirri fyrstu ber lítið á nasistunum og hefur sjónvarpsþáttaröðin m.a. verið gagnrýnd fyrir það atriði, en það sýnir kannski vel hvernig svona jaðarflokkur öskurapa er lítt áberandi meðal almennings, einkum þá borgarastéttarinnar, til að byrja með og það er ekki fyrr en líða tekur á í bókaflokknum að við kynnumst nasistunum almennilega, fyrst brúnstakkabullum SA manna sem ganga um berjandi fólk á götunum og síðar hvernig þeir smjúga inn í löggæsluna um leið og þeir eru komnir til valda. Jaðarsetning og ofbeldisverk gagnvart gyðingum læðast einnig hægt inn í frásagnarvitundina, ekki ólíkt því sem ímynda mætti sér að gerst hafi á árunum fram til 1935, þegar nasistar settu svo Nürnberg-lögin svokölluðu sem bönnuðu gyðingum að starfa fyrir hið opinbera og urðu þau grunnurinn að skipulögðum gyðingaofsóknum Þriðja ríkisins alveg til stríðsloka.

Skapandi óreiða og hedónismi

Fyrsta bókin í flokknum gerist hins vegar á hedónískum tímum þriðja áratugarins, þegar enn var spilaður djass í klúbbum og fólk virtist vilja lifa lífinu eins og enginn væri morgundagurinn. Styrjöldin mikla átti kannski sinn þátt í því að breyta hugsunarhættinum í þessa áttina, hún hafði endanlega brotið upp allt regluverk og óskrifuð lög nítjándu aldar og sýndi það sig á svo margan hátt í listum, tísku og skemmtanalífi að þetta tímabil hefur verið kallað ýmist „roaring twenties“ á ensku, „anneés folles“ á frönsku“ og „Goldene Zwanziger“ á þýsku, og ungt fólk á þessum tíma sýndi af sér áður óþekkt frjálsræði sem átti ekki eftir að endurtaka sig fyrr en með 68 kynslóðinni á sjöunda áratugnum. Framúrstefna, dadaismi, súrrealismi voru aðeins nokkrar af þeim liststefnum sem brutu sér leið á þessum tíma og það er augljóst af allri sköpun eftir fyrri heimsstyrjöld að rofið gagnvart nítjándu öldinni er algert, nema kannski á Íslandi, þar sem við í einangrun okkar breyttum fáu fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld, enda kom sú styrjöld til okkar í formi hernáms Breta og síðar hervernd Bandaríkjamanna. Kannski var „ástandið“ svokallaða ekki svo ólíkt hinum urrandi þriðja áratug á Vesturlöndum.

Fróðlegt verður þess vegna að sjá hvernig þáttaröðinni tekst að miðla þessari skapandi óreiðu og spennandi tímabili á allan hátt, á þessum tíma kemur kannski eitt af fyrstu stóra skrefunum í frelsisvæðingu kvenna í kjölfar kosningaréttar og kvenréttindahreyfinga aldamótaáranna og við upplifum einnig allt aðra hreyfingu á fólki milli stétta og staða, fólk er farið af stað svo um munar og hefur því ekki linnt síðan þá og á ekki eftir að gera það í bráð. Það hefur bæði togstreitu og sköpun í för með sér og það er okkar allra að reyna að finna það jafnvægi þar á milli sem ekki veldur ósköpum eins og varð í Þýskalandi með uppgangi nasista. 

Í bylgju sögunnar

Það er einmitt með svona bókaflokki sem hægt er að nálgast með ímyndunaraflinu það ástand sem fólkið er stendur frammi fyrir, og það skapar raunverulega dramatíska íroníu fyrir okkur lesendur að vita betur en sögupersónurnar hvað gerist í hinum stóra heimi sem þær kynnast aðeins sem einstaklingar í massífri bylgju sögunnar þar sem þær hafa engin áhrif, en eru samt gerendur með öllu sem þær taka sér fyrir hendur. Með því að skoða þessa hræðilegu ógöngur mannkyns í sögulegu ljósi þessara miklu átakatíma, getum við kannski gert okkur betur ljóst hvernig fer illa fyrir okkur í þetta sinn. En við getum vonandi skemmt okkur alveg konunglega á meðan eins og fígúrurnar í Babýlon Berlín gera alveg skammlaust.