Í rauða skáldahúsinu getur allt gerst

Mynd: raudakaldahusid.com / raudaskaldahusid.com

Í rauða skáldahúsinu getur allt gerst

14.04.2018 - 14:55

Höfundar

Rauða skáldahúsið opnaði dyr sínar í Iðnó við Tjörnina á skírdag og bauð gestum og gangandi að njóta gleði og glaums. Sumir voru uppáklæddir í samræmi við yfirskrift kvöldsins sem var Dauðasyndirnar sjö. Aðrir skeyttu fátt um slíkt og voru komnir til fylgjast með ljóðlist og húlahoppdans við undirleik jasshljómsveitar í frjálsu falli hugmynda okkar um sögufræg vændishús þriðja áratugar síðustu aldar í stórborgum Evrópu þar sem líkami og sál, listir og losti áttu sameiginlegt athvarf.

Meg Matish ljóðskáld og þýðandi frá Bandaríkjunum ýtti Rauða skáldahúsinu úr vör síðastliðið vor ásamt viðburðafélaginu Huldufugl. Nú hefur nokkrum sinnum með reglulegu millibili mátt koma saman og skemmta sér við listir og ljóð undir merkjum Rauða skáldahússins og ólíkum yfirskriftum.

Á skírdag ársins 2018 var í Rauða skáldahúsinu boðið upp á margvísleg búrlesk atriði auk ljóðalesturs. Nokkur hópur ungra ljóðskálda hefur hér fundið sér kærkomin vettvang en í Rauða skáldahúsinu bjóða skáld m.a. upp á einkaljóðalestur í afmörkuðum rýmum sem eru skreytt í samræmi við anda Rauða skáldahússins hverju sinni.

Í spilaranum má heyra það sem hljóðnema þáttarins Orð um bækur tókst að fanga á þeirri litríku samkomu sem Rauða skáldahúsið var á skírdag. Hér heyrist í fjölmörgum gestum sem og nokkrum þeirra sem komu fram, þeirra á meðal Brynhildi Björnsdóttur og Nönnu Gunnars eiganda viðburðafélagsins Huldufugls sem og ljóðskáldunum Ragnheiði Erlu, Friðrik Pedersen, Úlfi Fernis Lóusyni og fleirum. 

Næsta samkoma Rauða skáldahússins fer fram 21. júní næstkomandi og vísar með titli sínum til yfirvofandi Jónsmessunætur og er þar lofað að vanda ljóðalestri, lifandi tónlist, dönsurum, skemmtikröftum, spákonu og teiknurum. Eitt af heiðursskáldum kvöldsins verður hin austuríska Cornelia Travnicek

Síðastliðinn skírdag var það hins vegar skáldið Sjón sem hafði verið boðið að heiðra Rauða skáldahúsið. Sjón las upp úr nokkrum eldri ljóðabóka sinna og lýsti því yfir að Rauða skáldahúsið rifjaði upp minningar frá upphafsárum hans ljóðskálds.

Mynd: Magnus Fröderberg / Norden.org
Skáldið Sjón