Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Í málinu hefur enginn verið dæmdur – nema ég“

Mynd: RÚV / RÚV

„Í málinu hefur enginn verið dæmdur – nema ég“

28.10.2018 - 15:50

Höfundar

Sálumessa, ný ljóðabók eftir Gerði Kristnýju, fjallar um konu sem var misnotuð kynferðislega af bróður sínum, og fyrirfór sér í kjölfarið af umfjöllun um mál hennar.

„Ég kynntist konu um þrítugt sem hafði skrifað grein um að bróðir hennar hefði misnotað hana kynferðislega. Hún var andlega veik og hafði nokkrum sinnum reynt að svipta sig lífi,“ segir Gerður Kristný sem var ritstjóri Mannlífs þegar greinin birtist í janúar árið 2003. Þegar konan vissi af því að blaðið væri komið í prentun svipti hún sig lífi. „Það var auðvitað skelfilegt að frétta af því. En um leið fékk maður að vita, það sem mann hafði nú lengi grunað, að kynferðisofbeldi er banvænt.“

Gerður Kristný var svo kærð af öðrum bróður konunnar til siðanefndar blaðamannafélagsins fyrir greinina. „Ég fékk dóm um vorið. Það fannst mér sérkennilegt. En ég hafði áhrif, og gætti mín í kjölfarið. Þetta var mál sem var beitt þöggun.“ Nokkru síðar skrifar Gerður Kristný svo Myndina af pabba, byggða á sögu Thelmu Ásdísardóttur sem olli ákveðnum straumhvörfum í umræðu um kynferðisofbeldi gegn börnum. Fyrir hana fékk Gerður blaðamannaverðlaun.

Hún segir að sjálfsvíg konunnar hafi enn þá sótt á hana, fimmtán árum síðan. „Ég fór í skoskan kastala rétt fyrir utan Edinborg, setti undir mig hausinn og skrifaði Sálumessu, ákvað að yrkja um hana.“ Gerður vitnar meðal annars í Eddukvæði, Passíusálma og Davíðssálma í bókinni sem hún segir einum þræði vera píslargöngu. Gerður hugsaði vel hvaða nálgun hún ætti að beita á viðfangsefnið. „Ég passa mig alltaf á því að yrkja ekki sama kvæðið aftur,“ segir Gerður sem hefur áður skrifað tvær ljóðabækur sem fjalla um grimm örlög kvenna, Blóðhófni og Drápu. „Ég ákvað að haugbúi myndi vera ljóðmælandinn í þessari sögu, sem dvelur í dysinni með hinni látnu.“ Í bókinni rifjar Gerður upp samskipti sín við hina látnu og veltir því meðal annars fyrir sér hvaða refsingu hún óski kvalara hennar. „Því í málinu hefur enginn verið dæmdur – nema ég fyrir siðanefnd blaðamanna.“

Gerður er skeptísk á þá hugmynds að einhvers konar kynjastríð geysi í samtímanum eftir metoo-byltinguna. „Það er einhverjum sem finnst ágætt að það sé kynjastríð í gangi frekar en að við vinnum saman að mannréttindamálum. Það er sérkennilegt.“ Það hafi þó margt þokast í rétta átt frá því hún var ritstjóri Mannlífs. „Okkur miðar fram. Ég held að allt miði til hins besta.“

Egill Helgason ræddi við Gerði Kristnýju í Kiljunni.

Tengdar fréttir

Innlent

Rúmlega 100 ára saga skeytasendinga á enda

Menningarefni

Þorpið í 101 Reykjavík

Bókmenntir

Ekki eins dugleg að lesa núna

Bókmenntir

Að skapa myndina af sjálfum sér