Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Í lófa lagið að veita undanþágu

26.11.2011 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Innanríkisráðherra hefði verið í lófa lagið að veita undanþágu fyrir kaupum Huangs Nubos á Grímsstöðum á fjöllum, segir sérfræðingur í eignarrétti. Lögin veiti ráðherra rúma heimild, og fordæmisrök haldi ekki vatni.

Lögin um kaup útlendinga á landi og fasteignum hér eru að stofni til frá 1919 - þeim var síðan breytt 1966, og í þau voru sett ákvæði sem veittu ráðherra heimild til að gera undanþágu - sem hefur verið veitt í nánast öllum tilvikum síðustu ár.

Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í eignarrétti bendir á að ráðherra hefði auðveldlega getað veitt undanþágu á grundvelli málefnalegra sjónarmiða - til dæmis vegna hagsbóta fyrir fjórðunginn, erlendrar fjárfestingar. „Það hefði verið mjög einfalt að rökstyðja þá undanþágu á grundvelli þeirra sjónarmiða og allt tal um að ef undanþága hefði verið veitt, hefðu lögin verið einskis virði, þau auðvitað halda engu vatni slík rök.“

Þetta er vegna þess að heimildin til undanþágu er altæk, segir Karl og ráðherra ekki bundinn neinum skilyrðum. Ögmundur sagði í gær að undanþága hefði búið til fordæmi og hefði í rauninni afnumið lögin. Því hafnar Karl. „Auðvitað býr þetta ekki til eitthvað allsherjar fordæmi í öllum tilvikum. Það er einmitt þannig út af því að þessi heimild er opin, að þeim mun meira svigrúm hefur ráðherra í hvert og eitt sinn að meta hvort það séu málefnaleg sjónarmið sem búa að baki og hvort að jákvæð áform séu í þeim skilningi að það sé ástæða til að gefa undanþágu frá þessari bannreglu sem er að nálgast það að vera aldargömul.“