Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Í-listinn missti meirihlutann á Ísafirði

Mynd: RÚV / RÚV
Meirihluti Ísafjarðarlistans er fallinn. Flokkurinn tapaði um einu prósentustigi frá síðustu kosningum og það varð til þess að flokkurinn fær fjóra bæjarfulltrúa í stað fimm. Sjálfstæðismenn héldu sínum þremur bæjarfulltrúum en Framsóknarmenn bæta við sig einum, fá nú tvo fulltrúa í bæjarstjórn í stað eins.

Rætt var við oddvita framboðanna á Ísafirði í kosningavöku RÚV í sjónvarpi.

Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Í-listans, sagðist svekkt með niðurstöðuna. „Við höfum unnið vel saman og þekkjumst vel þannig að ég hef ekki áhyggjur af næstu fjórum árum í Ísafjarðarbæ,“ sagði Arna og sagði listann leggja áherslu á að komast í meirihlutasamstarf.

Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, fagnaði því að meirihlutinn væri fallinn. Hann sagðist hafa talið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði aðeins meira fylgi en að þetta kæmi þeim þó ekki á óvart. Hann segist vilja aukið samstarf í bæjarstjórn, vissulega þurfi að vera meirihluti sem ákveði fjárhagsáætlun og ráðningu bæjarstjóra, en að rétt væri að leggja niður meirihlutafundi. Þannig að ákvarðanir séu teknar í bæjarstjórn en ekki á meirihlutafundum.

Marzellíus Sveinbjörnsson, oddviti Framsóknarmanna, þakkaði kjósendum fyrir kosninguna. Hann hefur sagst reiðubúinn að vinna til beggja átta en sagði í kvöld að engar þreifingar væru hafnar um myndun meirihluta í bæjarstjórn. „Við verðum bara að jafna okkur á þessu góða gengi og sjáum hvað verður.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV