Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Í kapphlaupi við tímann

Mynd: RÚV / RÚV

Í kapphlaupi við tímann

02.02.2019 - 11:09

Höfundar

Hallgrímur Helgason tók í vikunni við Íslensku bókmenntaverðlaununum sem hann hlaut fyrir skáldsöguna Sextíu kíló af sólskini. Þetta er tíunda skáldsaga Hallgríms, hún gerist í Segulfirði um aldamótin 1900 og fjallar um mikla umbrotatíma í sögu íslensku þjóðarinnar, innreið nútímans í íslensku sjávarþorpi, og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda.

Hallgrímur hlýtur nú Íslensku bókmenntaverðlaunin í annað sinn, en hann fékk verðlaunin fyrir skáldsöguna Höfund Íslands árið 2001. Aðeins einn annar höfundur hefur hlotið verðlaunin tvisvar, Guðbergur Bergsson, sem fékk verðlaunin fyrir skáldsöguna Svaninn árið 1991 og skáldævisöguna Föður og móður og dulmagn bernskunnar árið 1997. Niðurstaða dómnefndar Íslensku bókmenntaverðlaunanna nú þarf ekki að koma á óvart, skáldsagan Sextíu kíló af sólskini hlaut eins og áður segir einróma lof gagnrýnenda, einhverjir héldu því fram að verkið væri besta skáldsaga Hallgríms til þessa. Talað hefur verið um magnaðan texta og rannsókn á þjóðareðli, og Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár á Rás eitt, sagði til dæmis í umfjöllun um bókina að lesandinn sé „innblásinn og útblásinn eftir lesturinn, hefur notið orðaleiksins, öðlast innsýn og nýja sýn, kímt og viknað, fundið fyrir bullandi samlíðun og von. Það hlýtur jú að vera tilgangur allra góðra skáldverka.“ Og Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar um verkið á vef Bókmenntaborgarinnar: „Hallgrímur hefur alltaf verið stílfær maður en hér er allt keyrt í botn svo lesandann næstum sundlar af kjarnyrtri íslenskunni sem dansar um síðurnar og dregur hann með sér í lygilegar svaðilfarir, rússíbanareið.“

Þrjú hundruð síður og engin síld

Hallgrímur segir tilfinninguna vera aðeins öðruvísi nú en þegar hann fékk verðlaunin fyrir átján árum. „að var kannski stærra móment, stærra skref fyrir mig, yngri höfundur með sína fjórðu bók, meiri svona stimpill að maður væri orðinn eitthvað, en vissulega sætt líka núna og gaman að fagna með stórri fjölskyldu.“ Hann segist sannarlega hafa haft efasemdir um verkið á ritunartíma þess, „ég var farinn að efast í restina, eftir fyrstu hundrað síðurnar fannst mér þetta vera það besta sem ég hef gert, síðan fór ég að efast um það allt, fór yfir það og breytti því.“ Þegar hann lauk við bókina tók við angistartímabil sem stóð yfir í mánuð, en síðan lét hrifning lesenda ekki á sér standa og Hallgrímur fékk trú á verkið aftur. 

Mynd:  / 
Ræða Hallgríms Helgasonar þegar hann tók við verðlaununum á Bessastöðum.

Hallgrímur segir að það hafi verið kominn tími á sögulega skáldsögu á hans höfundarferli. Kveikjan að skáldsögunni Sextíu kíló af sólskini var frásögn eftir Bólu-Hjálmar um kotbónda í Héðinsfirði sem hann færði síðan yfir í Siglufjörð, fyrirmynd Segulfjarðar í skáldsögunni. „Svo hafði ég lengi verið hrifinn af Sigló, var mikið þarna sem unglingur að keppa á skíðum og heillaðist alltaf af þessum stað og langaði oft til þess að takast á við síldartímann.“ Hann hafi hins vegar verið búinn að skrifa heilar þrjú hundruð síður af nýju bókinni þegar hann áttaði sig á því að síldin var enn ekki komin.

Fátt fólk að gera stóra hluti

Hallgrímur tileinkaði verðlaunin í þakkarræðu sinni á Bessastöðum „litla sæta bókabransanum“ á Íslandi, „hér er fátt fólk að gera stóra hluti,“ sagði hann í ræðunni. Og hann er ekki í vafa um mikilvægi bókmennta í okkar samfélagi. Bókmenntirnar séu mikilvægar fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar, þær séu grunnurinn sem við stöndum á. „Sem ungur maður var maður að berjast á móti þessu, þoldi ekki þessar Íslendingasögur, svo tók maður bara hefðina í fangið, þetta er ansi sterkt, maður verður að viðurkenna það, og furðuleg þessi íslenska bókmenning, hvað hún er ótrúlega lífseig og sterk, og nær langt aftur, og þetta er það sem við kunnum kannski best að gera, það er að búa til bækur, þó að við kunnum ekki lengur að prenta bækur, sem mér finnst alveg hræðilegt.“

Eilífðin spyr ekkert um aldir

Hallgrímur er sem kunnugt er bæði rithöfundur og myndlistarmaður, en hefur í seinni tíð aðallega einbeitt sér að ritstörfunum, og heldur því fram að meiri virðing sé borin fyrir skáldum en myndlistarmönnum á Íslandi. Hann segist halla sér sífellt meir að hefðinni, og að skáldsagan Sextíu kíló af sólskini beri þess merki. Hann hefur að undanförnu þýtt leikrit eftir William Shakespeare og Moliere, og segir að samtímabókmenntir liggi aðeins til hliðar hjá honum að minnsta kosti þessi dægrin. „Eilífðin spyr ekkert um aldir,“ segir Hallgrímur. Aðspurður um það hvert hann sæki innblástur nefnir hann skáldsöguna Lolitu eftir Vladimir Nabokov, bók sem hann keypti ungur í fornbókabúð í New York, „og þá var einhvern veginn eins og heimarnir kæmu saman, Evrópa og Ameríka, einhver evrópskur aðalsmaður að skrifa á amerískri ensku, þetta var ótrúleg blanda og hafði gífurleg áhrif á mig, og ég var solítið fastur í þessum áhrifum lengi.“

Ekkert breytist á Íslandi

Hallgrímur Helgason hefur oftar en ekki blandað sér í þjóðfélagsumræðuna með hárbeittum greinum og haft áhrif á hana. Hann segir að skáldskapurinn breyti ekki heiminum, skáldsögur breyti ekki þjóðfélögum, en það sé mögulega hægt að þoka einhverju áfram með greinum um þjóðfélagsmál, og þó ekki, því á Íslandi breytist nánast ekki neitt, sama klíkuveldið ráði ævinlega för. „Það eru einhverjir klausturbræður sem ráða öllu og komast alltaf upp með hvað sem er, og það er alltaf einhver Bjarni Ben við völd, og svo fara Vinstri grænir með honum og maður missir trúna á allt vinstrið, þannig að ég er ekkert voðalega bjartsýnn.“ 

Alls staðar klukkur

Hallgrímur verður sextugur síðar í þessum mánuði. Aðspurður um það hvað reki hann áfram við ritstörfin segist hann vera í kapphlaupi við tímann. „Konan mín segir að ég sé með klukkur á heilanum, það eru alls staðar klukkur í nánd, ég er alltaf að keppa við tímann, af því að ég er náttúrulega með þessa myndlistarbakteríu líka, það er svo mikið sem maður þarf að gera, maður þarf að koma þessu öllu í verk, og svo er stór fjölskylda, lítil börn, þannig að þetta er endalaus barátta við tímann, ég er bara að reyna að koma sem mestu í verk áður en maður fer.“

Hallgrímur er þessa dagana að ljúka við þýðingu á leikritinu Tartuffe eftir franska leikskáldið Moliere sem sett verður upp í Þjóðleikhúsinu. Hann segist í framhaldinu ætla að sinna myndlistinni en demba sér síðan í næstu skáldsögu með sumrinu, sögu verður mögulega einhvers konar framhald skáldsögunnar Sextíu kíló af sólskini. 

Rætt var við Hallgrím Helgason í Lestinni. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Fjölskyldan verður líka að þakka mér

Bókmenntir

Fjörugur stíll og kröftug nýsköpun

Bókmenntir

Hallgrímur hækkar upp í ellefu

Bókmenntir

Hvernig Ísland fór úr engu í eitthvað