Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Í heimsókn hjá Manfreð

Mynd: HallaHarðar / HallaHarðar

Í heimsókn hjá Manfreð

30.05.2018 - 20:15

Höfundar

„Nesti er eitt af fyrstu verkefnunum sem ég vann og mér þótti ákaflega vænt um það. Þessi hús hafa verið rifin og það hefur sært mig.“ Víðsjá sótti Manfreð Vilhjálmsson arkitekt heim í Smiðshús á Álftanesi en hann fagnaði níræðisafmæli á dögunum.

Manfreð Vilhjálmsson hefur komið víða við á löngum og farsælum ferli. Hann er fæddur í Reykjavík árið 1928, ólst upp í timburhúsi í Skerjafirði en hélt svo til Gautaborgar til náms í arkitektúr eftir stúdentspróf. Ætli Þjóðarbókhlaðan og heimavistarskólinn að Stóru-Tjörnum séu ekki með hans þekktari verkum, en hann hannaði einnig einbýlishús við Mávanes og Blikanes, sem hafa vakið athygli langt út fyrir landssteinana, þjónustuhús tjaldstæðisins í Laugardal og viðbyggingu við Ásmundarsafn svo eitthvað sé nefnt.

Verk Manfreðs hafa sinn auðkennandi stíl. Hann notar gjarnan sterka liti í bland við náttúruleg efni á borð við steypu, timbur og torf, og renna byggingar hans oftar en ekki saman við umhverfi sitt. Manfreð hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, svo sem menningarverðlaun DV og Fálkaorðuna auk þess að vera heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands. Hann rak lengst af eigin stofu en síðustu starfsárin starfaði hann með VA arkitektum.

Manfreð fagnaði níræðisafmæli sínu á dögunum og tók á móti Víðsjá á heimili sínu af því tilefni. Heimili hans stendur á Álftanesi og kallast Smiðshús, í minningu föður hans sem var smiður og hafði hvað mest áhrif á Manfreð. Manfreð hannaði og byggði húsið sjálfur og flutti fjölskyldan þar inn árið 1961.

Hér fyrir neðan er hægt að lesa brot úr viðtalinu, en í spilaranum hér fyrir ofan er viðtalið í heild sinni.

Processed with VSCO with a6 preset
 Mynd: HallaHarðar
Manfreð í stofunni í Smiðshúsi. Nær allir munir og listaverk í húsinu eru eftir Manfreð eða vini þeirra hjóna.

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að byggja þetta tilraunahús hér á Álftanesi?

„Við vorum að líta í kringum okkur en það var erfitt að fá byggingarlóðir í Reykjavík, eins og það er í dag. Við þekktum aðeins til hér og vinur okkar Gunnlaugur Halldórsson arkitekt bauð okkur þetta land á sínum tíma. Og svo var það kollegi minn, Guðmundur Kr. Kristinsson, sem byggði hér með mér þessi svokölluðu tilraunahús.“

Processed with VSCO with a6 preset
 Mynd: HallaHarðar
Manfreð lítur í baðherbergisspegilinn í Smiðshúsi. Umhverfis spegilinn má sjá hluta af hillum sem Manfreð hannaði úr kústsköftum, innblásinn af vini sínum Dieter Roth.

Mikið væri nú frábært ef það væri auðvelt að fá ódýrar lóðir til að byggja á, í þessari húsnæðiskreppu sem við erum að upplifa í dag….

„Já. Ég sem arkitekt er dáldið undrandi á því hvernig húsnæðismál þróast hér í höfuðborginni. Það er byggt á dýrum lóðum og þar af leiðandi verða húsin dýr og íbúðirnar dýrar. En annars þekki ég ekki vel til borgarinnar í dag svo ég get lítið sagt.“

Processed with VSCO with a6 preset
 Mynd: HallaHarðar
Manfreð í stólnum sem hann hannaði sérstaklega fyrir ellilífeyrisþega.

Er einhver bygging sem á sérstakan stað í hjartanu?

„Það held ég ekki. Þetta er eins og með börnin manns, þú tekur ekki eitt fram yfir annað. En ég er samt soldið dapur yfir einu verkefni sem ég vann á sínum tíma, en það er Nesti í Reykjavík og Veganesi á Akureyri. Þessi hús hafa verið rifin og það hefur sært mig. Nesti er eitt af fyrstu verkefnunum sem ég vann eftir að ég kom heim og mér þótti ákaflega vænt um það.“

Áttu einhver góð ráð til yngri arkitekta?

„Það er eitt í sambandi við nám í arkitektúr, sem er að hluta til hér heima. Mér finnst mjög mikilvægt fyrir arkitekt að dveljast dálítið erlendis og kynnast þar öðrum viðhorfum og þar með gerast víðsýnni en ella. Ég er ekki mjög hrifin af því að menntun væri alfarið hér innanlands.“