Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Í fangelsi fyrir að ýta undir ópíóíðafaraldur

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
John Kapoor, stofnandi bandaríska lyfjaframleiðandans Insys, var í gær dæmdur til fimm og hálfs árs fangelsisvistar fyrir að ýta undir mannskæða misnotkun ópíóíðalyfja í Bandaríkjunum. Kapoor, sem er 76 ára gamall, er fyrsti eigandi lyfjafyrirtækis sem dæmdur er til fangelsisvistar vegna ópíóíðafaraldursins sem dregið hefur tugi og jafnvel hundruð þúsunda Bandaríkjamanna til dauða á síðustu árum.

Kapoor var sakfelldur í maí á síðasta ári fyrir ábyrgð sína á flóknu ráðabruggi, sem gekk út á að múta læknum til að ávísa hinu ávanabindandi verkjalyfi Subsys til sjúklinga sem þó þurftu ekki á því að halda, og það í stórum skömmtum. Eftir tíu vikna réttarhöld voru hann og fjórir fyrrverandi yfirmenn í fyrirtækinu aðrir fundnir sekir um glæpsamlegt samsæri og í gær var Kapoor ákvörðuð refsing.

Nær 400.000 manns hafa dáið af völdum ofskammts ópíumskyldra lyfja í Bandaríkjunum á síðustu tveimur áratugum, samkvæmt tölum heilbrigðisyfirvalda. Um 48.000 létust af þessum örsökum árið 2017.