Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Í fangelsi fyrir að stela sex þúsund krónum

03.01.2018 - 10:52
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már - RÚV
Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið dæmdur í tveggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að stela um sex þúsund krónum frá Hjálpræðishernum. Að auki þarf hann að greiða um 519 þúsund krónur í málskostnað.

Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir þjófnað, með því að hafa í mars í fyrra brotist inn í verslun Hjálpræðishersins, Hertex, á Akureyri og stolið þaðan velferðarsjóði trúarsamtakanna og „kaffisjóðnum“ en áætlað þýfi hans úr innbrotinu var um sex þúsund krónur. 

Ákærði kom fyrir dóm og neitaði sök og því þurfti að boða til aðalmeðferðar í málinu. Við aðalmeðferð breytti hann afstöðu sinni og játaði brotið skýlaust. 

Dómur var kveðinn upp þann 30. desember síðastliðinn. Í dómnum kemur fram að sakaferill ákærða hafi verið nær óslitinn frá 1990 til 2005. Í apríl 2017 var hann dæmdur til fjögurra mánaða fangelsisvistar í Hæstarétti fyrir þjófnað, tilraun til fjársvika, nytjastuld, ólögmæta meðferð á fundnu fé og akstur án ökuréttinda. Með broti sínu nú hafi ákærði ítrekað brot sín og því er hann dæmdur í tveggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Þá þarf hann að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, ferðakostnað  og annan kostnað, samtals um 519 þúsund krónur.  

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV