Í brunarústum draumanna

Mynd: EPA / EPA

Í brunarústum draumanna

29.05.2018 - 19:36

Höfundar

Halldór Armand rýnir í mistök Loris Karius í úrslitaleik Real Madrid og Liverpool í meistaradeild Evrópu um helgina; viðbrögðin, nístandi angistina og brostna drauma hins fallna markvarðar.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar: 

Það var áhugavert að fylgjast með úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu síðastliðið laugardagskvöld. Þar öttu kappi tvö góð fótboltalið, hið spænska Real Madríd og hið enska Liverpool. Fyrir þá sem ekki fylgjast með fótbolta er rétt að taka fram að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar er ávallt einn af stærstu fótboltaleikjum ársins, ef ekki stundum sá stærsti, og það er óhætt að halda því hér fram að hver einasta manneskja sem lagt hefur stund á íþróttina og tekið hana alvarlega, hvort sem það eru krakkar úti á sparkvelli í Reykjavík eða atvinnumenn- og konur í stærstu klúbbum Evrópu, hefur einhvern tímann látið sig dreyma um að taka þátt í slíkum leik.

Ég man eftir því að hafa hugsað um það sjálfur þegar ég var yngri og sama tilfinning vaknaði núna um helgina þegar ég fylgdist með leiknum. Já, hvað það hlýtur að vera sérstök tilfinning að ganga út á þennan grasvöll í Kænugarði, að hafa náð upp á hæsta tind ástríðu þinnar, að skynja að þú ert það sem þú lést þig dreyma um að verða, eitthvað sem langflestir upplifa ekki í sínu lífi.

Ófullnægjan er lyftiduftið

Ja, eða hvað. Á þessum vettvangi hefur áður verið rætt um það hversu hættulegir draumar geta verið og ég tel ríka ástæðu til þess að ræða þetta viðfangsefni mun oftar, vegna þess að við lifum í heimi sem hvetur fólk til þess að láta drauma sína rætast, elta ástríður sínar og svo framvegis. Slíkur boðskapur er snyrtilegasta leiðin til þess að segja fólki að líf þess sé í raun óuppfylltur draumur – að það skorti eitthvað – því þannig er auðveldast að selja okkur eitthvað. Þetta sýnist mér í mjög einfaldaðri mynd vera jarðvegurinn sem við lifum í. Þetta er moldin sem líf okkar vex upp úr. Ófullnægja er lyftiduftið í vestrænu hagkerfi.

Og öflin sem vilja sannfæra okkur um að elta ástríður okkar, gera það sem við elskum, elta drauma okkar fara vitaskuld aldrei ofan í kjölinn á því hversu flókið það getur verið að eiga sér draum, já, hversu eldfimir þeir geta verið, hversu ofboðslega hratt þeir geta fuðrað upp, eða hversu mótsagnakenndar ástríður okkar eru næstum alltaf. Og það er ekki hollt að ganga út frá því að hver einasta manneskja gangi með einhvern tiltekinn draum, eða ákveðna ástríðu, óuppfyllta, í maganum. Því þannig er það ekki alls ekkert alltaf.

Einn daginn elskum við eitthvað, daginn eftir gerum við það ekki. Þá elskum við eitthvað allt annað. Á morgun erum við önnur manneskja en í dag og ástríður okkar eru oft ekkert nema skuggi - skuggi af einhverju sem við sjáum aldrei og vitum ekki hvað er. Þetta er eflaust það sem Hamlet á við í leikriti Shakespeares, með svari sínu til Gullinstjörnu, þegar hinn síðarnefndi boðar danska prinsinum að metnaður sé ekkert nema skuggi draums. Hamlet svarar: Draumurinn sjálfur er aðeins skuggi.

Semsagt: Það er ekki metnaðurinn sem er holur, ekkert nema skugginn af draumi, heldur er það draumurinn sjálfur sem hefur ekkert inntak. Að ætla sér að skilja sína eigin drauma er eins og að ætla sér að fanga hafgust í lófa sínum. Það er ómögulegt. En það er ekki bara svo að draumar og ástríður séu flókin, erfið og stundum fljótandi fyrirbæri sem ómögulegt er að festa hönd á. Draumar geta líka komið aftan að okkur. Og þá komum við aftur að úrslitaleiknum í Meistaradeild Evrópu um helgina.

Varastu drauma þína

Lokatölur leiksins voru 3-1 fyrir Real Madríd. Tvö af þremur mörkum liðsins voru skoruð vegna þess að markmaður Liverpool, hinn þýski Loris Karius, gerðist sekur um mistök sem hefðu jafnvel komið manni á óvart ef maður hefði séð sjö ára barn gera þau. Í fyrra skiptið hélt hann á boltanum og kastaði honum í framherja Real Madrid. Þaðan skoppaði boltinn í netið. Í seinna skiptið fékk hann skot beint á sig en þegar hann ætlaði sér að verja boltann var eins og hendur hans misstu allan mátt. Þær voru eins og tveir tómir uppþvottahanskar þegar boltinn lenti á þeim og lak síðan í netið. Greyið maðurinn. Það var ægilegt að horfa upp á þetta. 

Mér var hugsað til þessarar fornu speki: Varastu drauma þína, því þeir gætu ræst. Mér skilst að rót þessarar speki liggi í gamalli, jiddískri bölvun, sem er svohljóðandi: Megir þú öðlast það sem þú óskar þér, en það er að vísu alltaf erfitt að átta sig á því hvaðan nákvæmlega svona setningar koma.

Hrár sannleikur

En af hverju á maður að varast drauma sína? Jú, líklega er það vegna þess að, ef þeir rætast, þá er afar ólíklegt að þeir muni rætast með þeim hætti sem þú sérð fyrir þér. Draumar sem rætast hafa algjörlega ófyrirsjáanlegar afleiðingar og ég veit ekki hvort nokkur manneskja í veröldinni var rassskellt jafnrækilega af sínum eigin draumi, sinni eigin ástríðu, í síðustu viku, en Loris Karius. Hann sá draum sinn rætast, hann spilaði úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu, fékk staðfestinguna á því að hann sé einn af bestu fótboltamönnum heims, og afleiðingin var ja, ef ekki versta kvöld ævinnar, þá án nokkurs vafa eitt af þeim allra verstu. Mörg hundruð milljónir manna horfðu á ófarir hans breiða úr sér í beinni útsendingu. Og þegar hann lagði sinn eigin draum í rúst, lagði hann um leið draum milljóna annarra í rúst. Stórum draumum fylgir mikil ábyrgð, býst ég við.

epa06768712 Liverpool goalkeeper Loris Karius reacts after losing the UEFA Champions League final between Real Madrid and Liverpool FC at the NSC Olimpiyskiy stadium in Kiev, Ukraine, 26 May 2018.  EPA-EFE/ARMANDO BABANI
Karius var óhuggandi í leikslok. Mynd: EPA

Og þegar myndavélin starði miskunnarlaust á hann eftir leik, þar sem hann lá á grúfu fyrir framan markið sem honum hafði mistekist svo ævintýralega að verja og tárin streymdu niður vangana, kom enginn af liðsfélögum hans til að hugga hann eða veita honum styrk. Nei, hann var skilinn eftir einn í angist sinni fyrir framan myndavélarnar og ég gat ekki varist því að hugsa að það væri einhver sannleikur þarna, í þessari beinu útsendingu, í þessum brunarústum draums sem lét ekki að stjórn og dró að lokum dreymandann niður í undirdjúpin fyrir augum okkar. Sannleikurinn sem er svo hrár og kaldur, sannleikurinn sem er svo erfitt að hofast í augu við.

Ég sat orðlaus um stund í sófanum og fannst eins og setningarnar þekktu úr Innstu myrkrum Josephs Conrads væru hvíslaðar í loftinu, þegar Marlow segir:

Það er ómögulegt að miðla tilfinningunni sem setur svip sinn á hvert tímabil í lífi hverrar manneskju – tilfinningunni sem er sannleikur þess, sem veitir því merkingu – lúmskum og nístandi eiginleika hennar. Það er ómögulegt. Við lifum, eins og okkur dreymir, í einsemd.

Ég veit ekki hvort þetta er eitthvað sem markvörður Liverpool tekur undir í ljósi lífsreynslu sinnar á laugardag, eða hvort þetta er eitthvað sem hann hefur áhuga á að velta fyrir sér í sumarfríinu sínu. En af myndum af dæma er hann með flúraðan á sig kross fyrir aftan hægra eyrað og ég velti fyrir mér hvort hann hafi, þegar hann lagðist á koddann á hótelinu í Kænugarði á laugardagskvöld, mögulega spurt Guð hvers vegna hann hafi látið þetta henda sig, hvers vegna hann hafi látið bjarg veruleikans hrynja undan fótum sínum í beinni útsendingu fyrir framan heimsbyggðina. Líklega fékk hann ekkert svar.

En stundum eru stærstu gjafir Guðs kannski einmitt bænirnar sem hann hlustar ekki á.

epa06765900 Goalkeeper Loris Karius of Liverpool reacts after the UEFA Champions League final between Real Madrid and Liverpool FC at the NSC Olimpiyskiy stadium in Kiev, Ukraine, 26 May 2018. Madrid won 3-1.  EPA-EFE/ARMANDO BABANI
 Mynd: EPA

Tengdar fréttir

Pistlar

Guernica í tunglsljósi

Pistlar

Friður án friðar í nýrri, gamalli skyrtu

Pistlar

Hættulegir draumar og heillandi óvinsældir

Pistlar

Þegar Trúman hætti á Facebook