Í barndómi eftir Jakobínu Sigurðardóttur (1918-1994) er minningabók þar sem hún lýsir æskuheimili sínu í Hælavík á Hornströndum. Bókin kom út árið 1994 og í eftirmála dóttur Jakobínu, Sigríðar Þorgrímsdóttur, segir að hún hafi látið handritið eftir sig þegar hún dó og hafði þá tekist að ljúka því þrátt fyrir veikindi.
Frásögnin er sett fram sem heimsókn Jakobínu á gamals aldri í bæ bernskunnar, heimsókn í annan tíma, treystandi á minni sem hún taldi óbrigðult en reynist orðið svikult. „En að ég rataði ekki um þann bæ sem einu sinni var, því trúði ég varla … Og ég sætti mig ekki við þetta …“ segir hún á upphafsblaðsíðunum og leggur samt af stað í ferð um gömul húsakynni. Útkoman eru heillandi og óhefðbundnar endurminningar sem Ásta Kristín Benediktsdóttir íslenskufræðingur og Halldór Xinyu Zhang, meistaranemi í íslenskum bókmenntum, munu ræða í sunnudagsþættinum. Þátturinn verður í umsjón Auðar Aðalsteinsdóttur.
Rætt var við Ástráð Eysteinsson, prófessor í bókmenntum, um bókina í Víðsjá og hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan, auk lesturs Helgu Margrétar Jóhannsdóttur á upphafssíðum verksins.