Hýryrði til bjargar íslenskunni

Mynd: ÞÓL / ÞÓL

Hýryrði til bjargar íslenskunni

28.03.2018 - 16:40

Höfundar

„Þetta er bylting í málinu,“ segir Anna Sigríður Þráinsdóttir málfarsráðunautur RÚV um hýryrði, fjölbreytt safn orða, hugtaka og skilgreininga sem hinsegin fólk hefur búið til og safnað saman til að lýsa sinni innri og ytri veru og vitund. Anna og Unnsteinn Jóhannsson alþjóðafulltrúi hjá Samtökunum 78 ræddu um hýryrði, og hvernig þau viðhalda íslenskunni með því að stuðla að framþróun tungumálsins, í Samfélaginu.

Á síðustu árum hefur hinseginsamfélagið á Íslandi bætt heilmiklu við tungumálið, með nýyrðum, þýðingum á erlendum orðum og skilgreiningum sem lýsa fjölbreytileika manneskja í öllu sínu litrófi.

„Ég held að þetta sé alveg einstakt. Þetta er grasrótarstarfsemi, það er ekki verið að keyra þetta inn að ofan og þvinga okkur til að taka þetta upp. Þetta er fólkið sjálft, sem vill hafa eitthvað um það að segja hvaða orð eru notuð um það, að leggja okkur til, gefa okkur tækifæri til að tala um það á íslensku,“ segir Anna. Þessi vinna hafi komið sér einkar vel í allri fjölmiðlaumfjöllun.

Vont fyrir jaðarsetta manneskju að vera á útlensku

Unnsteinn segist merkja mikinn áhuga á íslensku og málvísindum innan Samtakanna '78 og annarra hinsegin félagshópa. Auk nýyrðasamkeppni er töluvert rætt um leiðir til að þýða orð eða finna upp ný íslensk orð á spjallþráðum hinsegin fólks. „Ég held að þetta sé fyrst og fremst ... partur af hinsegin baráttunni almennt, að fá að velja sín eigin orð og hvernig þau eru notuð,“ segir Unnsteinn.

Þá segir hann að hinsegin fólk vilji finna að í tungumálinu sé komið eins fram við það og aðra, að það þurfi ekki grípa til annars tungumáls eða orðfæris til að ræða málefni þess. „Að jaðarsett manneskja upplifi svo í ofanálag að það þurfi ensk eða dönsk orð um viðkomandi,“ útskýrir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Finna sér stað í tungumálinu

Hinsegin íðorðasafn er kallað hýryrði („enn eitt frábært orð“ skýtur Anna Sigríður að) og þangað hefur safnast mikill fjöldi orða og skilgreininga. (Sjá til dæmis með því að smella hér og hér

Og orðin þróast hratt, sum eru rétt nýmynduð þegar þau eru orðin úrelt eða annað betra komið í staðinn. Til dæmis voru kynleiðréttingaraðgerðir eitt sinn kallaðar kynskiptaaðgerðir sem í dag þykir vera niðrandi orð og úrelt. Og kynáttunarvandi kallast nú kynami.

„Í stað þess að reita hár okkar yfir því að vera endalaust að þurfa að læra ný hugtök þá eigum við að fagna því að fá þennan orðaforða inn í málið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fáum orð sem fólk er sátt við að séu notuð um það sjálft. Fólk í jaðarsettum hópum, hvers eðlis sem þeir eru, eiga að fá að hafa eitthvað um það segja hvað orð eru höfð um það. Það er hluti af því að eiga stað í samfélaginu að eiga sér stað í málinu,“ segir Anna.

Og hvort sem fólk er eikynhneigt eða pankynhneigt, flæðigerva eða vífguma eða einfaldlega kynsegin, eða kýs að skilgreina sig ekki með neinum orðum, þá er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvernig og hvar viðkomandi finnur sig í íslenskunni.

 „Við þurfum ekki að skilja hvað býr að baki hverju einasta orði. Það er bara svo mikil nýsköpun fólgin í þessu og sköpunarkraftur sem er svo góður fyrir tungumálið. Ég fagna öllum íslenskum orðum sem koma inn í málið og taka sér bólfestu og verða virk. Og fjölmörg orð á þessum lista eru orðin þannig,“ segir Anna Sigríður og nefnir til dæmis orðið „bur“ sem er komið inn í frumvarp til nýrra mannanafnalaga sem valkostur við „dóttir“ eða „son“ fyrir þau sem vilja ekki skilgreina sig eftir karl- eða kvenkyni.

Fær fólk til að vilja tala íslenskuna áfram

„Það er önnur tilfinning sem kemur frá íslenskum orðum þegar tungumálið þitt er íslenska,“ segir Unnsteinn. „Þegar maður fór að grúska og leita og lesa öll þessi orð sem komu og það fór einhvern veginn fór um mig í hjartanu og vermdi mann. Maður fékk tilfinningu fyrir málinu og þykir nú vænna um tungumálið,“ segir hann.

„Þetta er það sem við þurfum til að viðhalda málinu,“ segir Anna Sigríður. „Við þurfum grósku og nýyrði og orð sem fólk getur notað um sig til að það fáist til að tala þetta mál áfram,“ segir Anna. Hýryrði séu því staðfesting á því að íslenskan skipti máli og lifi góðu lífi.

Hlusta má á viðtalið við Önnu Sigríði og Unnstein í spilaranum hér að ofan.