Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Hyggst stofna nýjan flokk

22.08.2011 - 17:56
Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður, hefur ákveðið að segja sig úr Framsóknarflokknum og ætlar að sitja sem óháður þingmaður. Hann hyggst stofna nýjan stjórnmálaflokk.

Guðmundur segir ástæðuna vera djúpstæðan skoðanaágreining. Flokkurinn sé ekki að fara þá leið sem hann geti sætt sig við og hyggst rökstyðja á morgun ástæður þess að hann tekur þessa ákvörðun. Guðmundur telur augljóst tómarúm í litrófi íslenskra stjórnmála. „Það þurfi frjálslyndan alþjóðlega sinnaðan, grænan miðjuflokk á Íslandi og ég hef fundið þetta mjög víða og það er í grundvallaratriðum það sem ég stend fyrir. Ég sé ekki annað en að það sé fullt af fólki sem kalli eftir slíkum flokki, en það er ekki hlaupið að því.“ Guðmundur segist vilja láta reyna á stofnun slíks flokks.

Guðmundur sagðist ekki vera í neinu samstarfi við Samfylkingu eða Vinstri hreyfinguna grænt framboð. Hann hyggst stofna nýjan stjórnmálaflokk sem hann segir munu fylla tómarúm sem nú sé til staðar á þingi. Guðmundur hyggst ætla að sitja óháður á þingi þangað til.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segist fyrst hafa heyrt þessi tíðindi í fréttum RÚV. Tíðindin komi á óvart ekki síst í ljósi þess að flokkurinn hafi aukið fylgi sitt að undanförnu. „Ekki síst í ljósi þess að Guðmundur hefur verið tiltölulega stutt í Framsóknarflokknum og kannski hefði átt að gefa okkur meiri tíma. En þetta kemur virkilega á óvart, ég verð að segja það,“ segir Gunnar Bragi.

Guðmundur segir hinsvegar að tíðindin eigi ekki að koma flokksystkinum sínum á óvart. „Guðmundur hefur ekki rætt þennan skoðanaágreining við mig,“ segir Gunnar Bragi. „En ég held að það sé best að við gefum honum tækifæri til að skýra sitt mál og hvað vakir fyrir honum. Hann hefur ekki sagt mér frá þessu og mér vitanlega hefur hann ekki tilkynnt forystu flokksins þetta. Þannig að þetta kemur úr óvæntri átt. Við höfum ekki haft tækifæri til að ræða mikinn skoðanaágreining svo ég viti til,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir afstöðu flokksins gegn Evrópusambandsaðild hafa skipt miklu um ákvörðun Guðmundar Steingrímssonar. Hann segir viðbúið að einhverjir fylgi Guðmundi úr flokknum.

Einar Skúlason hefur einnig, samkvæmt fésbókarsíðu sinni, sagt sig úr Framsóknarflokknum og sent forseta Alþingis bréf um að hann hafi sagt af sér sem varaþingmaður.