
Hyggst höfða meiðyrðamál
Í skýrslunni segir um ráðningu Halls að það veki athygli að Hallur, sem á þeim tíma hafði lengi verið starfandi í Framsóknarflokknum, hafi verið ráðinn til stofnunarinnar, fyrst sem yfirmaður gæða- og markaðsmála en síðar sem yfirmaður þróunar- og almannatengslasviðs og að lokum sem sviðsstjóri þróunarsviðs. Ennfremur segir að ekki fáist séð að umrædd staða hafi verið auglýst er Hallur var fyrst ráðinn árið 1999.
Hallur segir þetta alrangt, Gallup hafi séð um ráðningarferlið og metið hann hæfastan umsækjenda. Þau verkefni sem hann hafi gegnt hjá sjóðnum eftir það hafi verið á sambærilegu stjórnunarstigi en verið tilkomin vegna skipulagsbreytinga.
Hallur segir einn fulltrúa rannsóknarnefndarinnar hafa lagt sig fram um að koma athugasemdum um ráðningu Halls á framfæri á blaðamannafundi nefndarinnar. Hann hyggst því sérstaklega beina sjónum sínum að viðkomandi nefndarmanni í meiðyrðamálinu.
Samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir Alþingis er ekki hægt að lögsækja nefndarmenn.