Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hyggjast friðlýsa tvö vinsæl ferðamannasvæði

Mynd með færslu
Lokað hefur verið fyrir umferð um göngustíga í Reykjadal, ofan við Hveragerði.  Mynd: Haukur Holm - RÚV
Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um friðlýsingu tveggja svæða, Háafoss og Gjárinnar í Þjórsárdal og Reykjatorfunnar sem liggur upp af Hveragerði í Ölfusi. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins. Á báðum stöðunum er ágangur ferðamanna sagður mikill. 

Horft er til þess að í kjölfar friðlýsingar verði lagðir stígar og umferð stýrt þannig að álag á viðkvæm svæði verði minna. Í tilkynningunni er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra, að friðlýsing sé lykilatriði , með henni fáist fé til landvörslu og uppbyggingar innviða. 

Á að varðveita einkenni landslagsins

Áformin um friðlýsingu svæðisins í Þjórsárdal, sem nær til Gjárinnar, Háafoss og nágrennis, voru kynnt í samstarfi við Skeiða- og Gnúpverjahnepp og forsætisráðuneytið. Friðlýsingunni er ætlað að varðveita einkenni landslagsins og fagurfræðilegt og menningarlegt gildi þess. 

Undir miklu álagi

Reykjatorfuna stendur til að friða í samstarfi við Ölfus, Hveragerðisbæ og umráðendur ríkisjarða. Svæðið einkennist af jarðhita og þar er fjöldi hvera, lauga, bergganga og framhlaupa. Innan marka svæðisins eru tveir dalir, Reykjadalur og Grænsdalur. Reykjadalur er sagður undir miklu álagi. Grænsdalur er að mestu óraskaður en þar er ekkert stígakerfi til staðar til að stýra gestum frá viðkvæmum svæðum og þeim sem beinlínis eru hættuleg vegna jarðhita. 

Í vor lokaði Umhverfisstofnun Reykjadal fyrir umferð ferðamanna um göngustíg í Reykjadal vegna aurbleytu sem stafaði af mikilli umferð. Göngustígurinn var lokaður í sex vikur.

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV